Niðurfelling á undanþágu frá virðisaukaskatti fyrir aðgangseyri að íslenskum kvikmyndum mun ekki hafa áhrif á miðaverð, heldur er eingöngu verið að laga 24 ára meinsemd í skattaumhverfi innlendra kvikmyndaframleiðenda. Þetta segir Ari Kristinsson, kvikmyndaframleiðandi og ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Mbl.is greindi frá því í gær að í tillögum meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar væri ekki að finna heimild til framlengingar á undanþágunni sem hefur verið í gildi síðan 1990, en vafi var á því hvort slíkt samræmdist samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Ari segir þetta skref vera mjög ánægjulegt fyrir íslenska kvikmyndagerð og að þetta muni ekki hafa áhrif á kvikmyndaunnendur.
Þegar virðisaukaskattslögin voru sett á var sala aðgöngumiða á íslenskar kvikmyndir undanþegin skattinum. Ari segir að það hafi verið samkomulag milli iðnaðarins og yfirvalda um að þrátt fyrir þessa undanþágu gætu aðilar fengið innskatt til baka af seldri vöru. Fyrir þremur árum hafi verið komist að því hjá ríkisskattstjóra að slíkt væri andstætt virðisaukaskattslögum og því hafi verið farið í þessa endurskoðun.
Ari segir að á síðustu árum hafi hlutfall kvikmyndaframleiðenda alltaf orðið minna og minna. Það hafi þýtt að menn voru ekki tilbúnir í að markaðssetja kvikmyndirnar jafnmikið þar sem hlutfall sölutekna af hverjum miða til framleiðenda hafi minnkað mikið. Með breytingunni núna verða aftur á móti teknir upp svokallaðir miðastyrkir, þar sem ríkið greiðir til baka ákveðna upphæð fyrir hvern seldan miða. Þetta hafi verið reynt bæði í Noregi og Svíþjóð með góðum árangri og sé hvetjandi fyrir framleiðendur að gera kvikmyndir sem dragi fólk í kvikmyndahúsin.
Að sögn Ara verða miðastyrkirnir miðaðir við um 30 milljónir fyrir um 100 þúsund selda miða, en það er nálægt meðaltali síðustu ára. Hann segir að með þessari breytingu komi þeir fjármunir sem á síðustu þremur árum hafi runnið í ríkissjóð aftur til kvikmyndaframleiðenda, en áhrifin verði ekki önnur til neytenda.