Samkvæmt nýbirtri mælingu Hagstofu Íslands hækkaði vísitala neysluverðs um 0,05% á milli nóvember og desember. Er þetta verulega undir þeirri hækkun sem spáð var, en opinberar spár gerðu ráð fyrir 0,3% til 0,4% hækkun milli mánaða. Í desember í fyrra hækkaði vísitalan um 0,4% frá fyrri mánuði, og lækkar því tólf mánaða taktur verðbólgunnar úr 4,5% í 4,2% á milli nóvember og desember.
Helstu ástæður fyrir þessari þróun er lækkun flugfargjalda, þvert á það sem almennt hefur gerst í desember á undanförnum árum, auk þess sem matvæli hækkuðu minna en spáð hafði verið. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka. Hingað til hefur hækkun á flugfargjöldum almennt verið á bilinu 12 til 25% í desember, en í þetta sinn lækkuðu þau um 3,7%.
Þá eru horfur vísitölunnar á næstu mánuðum einnig að færast til minni hækkunar, en fallið var frá ýmsum krónutöluhækkunum opinberra gjalda í lokameðferð fjárlaga í gær. Segir greiningardeildin að þegar stórir hækkunarmánuðir detta út í febrúar, mars og apríl gæti verðbólga farið niður fyrir 4% strax í janúar og nálgast 3% með vorinu.