Meirihluti breskra þingmanna styður aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka að því er fram kemur í frétt Financial Times. Segir þar að samkvæmt árlegri könnun sem fyrirtækið Ipsos Mori standi fyrir séu tveir þriðju þingmanna meðfylgjandi aðskilnaðinum. Meirihluti í öllum flokkum er þessu fylgjandi.
Málefnið hefur verið nokkuð í umræðunni á þessu ári hér á landi, en á Alþingi hefur mál verið flutt á síðustu tveimur löggjafarþingum um aðskilnað. Það hefur þó ekki enn hlotið brautargengi, þrátt fyrir að vera stutt af þingmönnum stjórnarflokkanna. Í skoðanakönnun sem gerð var í september kom í ljós að meirihluti landsmanna er einnig meðfylgjandi aðskilnaði.
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hefur þó sagt aðskilnað skref í ranga átt og að slíkt gæti fælt erlenda fjárfesta frá landinu. Í umsögn Seðlabanka Íslands til efnahags- og viðskiptanefndar kom einnig fram að bankinn teldi aðskilnaðarleiðina ekki endilega þá bestu.
Könnun Ipsos Mori hefur verið gerð árlega, en þetta er í fyrsta skipti sem hún kemst í hendur blaðamanna. Niðurstöður úr öðrum spurningum komu minna á óvart og voru skoðanir oft skiptar milli Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins.