Bílson verkstæðið mun í dag opna nýtt verkstæði í húsakynnum fyrirtækisins að Kletthálsi 9. Býður það í fyrsta sinn viðskiptavinum aðgang að forgreiningu, en þar verður gert heilstöðumat á bifreiðinni svo hægt verði að fá nánari upplýsingar um kostnað og tíma sem viðgerðin mun taka.
Á nýjum stað verða 14 vinnuaðstöður og segir Bjarki Harðarson, eigandi verkstæðisins, að þetta sé þar með stærsta almenna verkstæði landsins sem ekki sé í eigu bílaumboðanna.
Að sögn Bjarka er stækkunin umtalsverð, en nýja húsnæðið er rúmlega 1400 fermetrar, meðan fyrri staðsetning var um 400 fermetrar. Hann segir að starfsmannafjöldi muni einnig aukast eitthvað á nýjum stað með tíð og tíma.
Verkstæðið er með þjónustusamning við Heklu, en nýja aðstaðan var hönnuð með hliðsjón af öllum stöðlum framleiðendanna Volkswagen og Skoda sem Bílson sérhæfir sig í viðgerðum á. Segir Bjarki að með tækjakosti og þjónustuframboði teljist Bílson bílaverkstæðið vera samstíga því besta í Evrópu.
Bjarki segir að helsta breytingin á nýja verkstæðinu sé forskoðunin, en þar sé gert 10 til 15 mínútna mat á bílnum áður en farið er í viðgerð. Út frá því er gerð kostnaðaráætlun og tímalengd viðgerðarinnar áætluð. Með þessu geti verkstæðið unnið algjörlega eftir kaupalögunum þar sem viðskiptavinur viti með sem öruggustum hætti hver heildarkostnaður verði áður en farið er í viðgerðina. Verður húsið opið á morgun frá 10 til 15 og viðskiptavinum kynnt aðstaðan.
Bílson verkstæðið var stofnað árið 1984, en þá var það í um 80 fermetra húsnæði við Langholtsveg 115. Fljótlega var þörf fyrir stækkun og um áramótin 1989 til 1990 var verkstæðið flutt í Ármúla 15, þar sem það hefur verið allar götur síðan. Í upphafi voru starfsmenn þess 3, en í Ármúlanum hafa starfað mest 9 manns. Bjarki segir að unnið hafi verið að opnun nýja verkstæðisins í um hálft ár, en það hafi verið gert í mikilli samvinnu við bílaframleiðendur.