Hneykslismálin í bankaheiminum

Mikið hefur gengið á í bankaheiminum á þessu ári og hvert hneykslismálið rekið annað. Mesta umfjöllun fékk Libor-vaxtasvindlið, en þar er talið að nokkrir af stærstu bönkum heims hafi haft óeðlileg áhrif á vextina með því að senda inn villandi og rangar upplýsingar. Áhrifanna gætti alls staðar um heiminn, enda eru Libor-vextir mikið notaðir sem grunnviðmið fyrir vaxtakjör milli stórra aðila, jafnt og hjá einstaklingum, en gengistryggð íbúðalán voru meðal annars mörg með tengingu við Libor-vextina.

Vegna svindlsins sættist breski Barclays-bankinn á að greiða 450 milljónir Bandaríkjadollara í sekt, auk þess sem stjórnarformaðurinn Marcus Agius og forstjórinn Bob Diamond létu af störfum. Svissneski UBS-bankinn var einnig flæktur í málið og greiddi á árinu 1.500 milljónir dollara í sekt.

Enn eru margir alþjóðlegir bankar í rannsókn og búist er við að málið muni enn vinda upp á sig. Ráðamenn í mörgum ríkjum heimsins hafa einnig brugðist við og krafist þess að kafað sé dýpra og skoðað hvernig millibankavextir og vaxtaviðmið eru ákveðin svo svipað mál geti ekki komið upp aftur.

Tapaði 5.800 milljónum dollara á 6 vikum

Það hneyksli sem kostaði bankastofnun þó mesta fjármuni á árinu var mál sem kennt er við „hvalinn frá London“. Þar tapaði miðlari hjá fjárfestingasviði JPMorgan-bankans í London, Bruno Iksil, 5,8 milljörðum Bandaríkjadollurum á aðeins 6 vikum. Tapið mátti rekja til áhættusamra afleiðuviðskipta, en gerðar voru breytingar á yfirstjórn bankans í kjölfarið. Iksil hafði fengið gælunafnið hvalurinn frá London, vegna þess hversu mikla áhættu hann tók og hárra upphæða sem hann lagði fram í viðskiptum. 

Önnur mál sem komu upp voru meðal annars peningaþvættismál HSBC-bankans fyrir skipulagða glæpahópa í Mexíkó og Standard Chartered-bankans með millifærslur frá viðskiptavinum í Íran á reikninga í Bandaríkjunum. Slíkt er ólöglegt vegna viðskiptaþvingana sem settar hafa verið á Íran. Þá lenti RBS-bankinn í Bretlandi í miklum tölvuvandræðum í allt að 2 vikur sem töfðu greiðslukerfi mikið.

Dýr hugbúnaðarvilla

Í ágúst tapaði svo verðbréfafyrirtækið Knight Capital Group 440 milljónum Bandaríkjadollara á 45 mínútum vegna galla í tölvukerfi. Fyrirtækið hefur hingað til hagnast verulega á verðbréfaviðskiptum með aðstoð frá tölvukerfum fyrirtækisins sem hafa gert því kleift að stunda viðskipti af meiri hraða en áður. Uppfærsla á kerfinu leiddi til þess að á 45 mínútna tímabili keypti forritið bréf á uppsprengdu verði sem leiddi af sér frekari hækkun á bréfum fyrirtækjanna sem forritið hélt svo áfram að kaupa.

Þá var verðbréfamiðlarinn fyrrverandi, Kweku Adoboli, dæmdur sekur um fjársvik fyrir dómi í London. Adoboli var fundinn sekur um að hafa tapað 2,3 milljörðum Bandaríkjadala, 292 milljörðum króna, af fé svissneska bankans UBS með svikum. Brotin framdi Adoboli árið 2011, en hann var handtekinn í september sama ár.

„Eitruð og eyðileggjandi menning“

Breskir stórbankar voru áfram í framlínunni þegar kom að hneykslismálum í ár, en stærstu viðskiptabankar landsins lofuðu að endurgreiða litlum og millistórum fyrirtækjum vegna vaxtavarna sem bankarnir höfðu selt á yfirverði. Meðal bankanna voru Barclays, HSBC, Lloyds og Royal bank of Scotland. 

Greg Smith, sem var einn yfirmanna Goldman Sachs í Evrópu, ákvað á árinu að segja frá því sem hann kallaði „eitraða og eyðileggjandi menningu“ innan bankans. Í uppsagnarbréfi sínu, sem var birt í New York Times, sakaði hann starfsmenn bankans um að kalla viðskiptavinina brúður (e. muppets) og að almennt væri talað um að græða á þeim með bellibrögðum.

Efnisorð: bankar Libor
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK