Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Símanum og verkefni næsta árs gefa ekki til kynna að kyrrstaða sé í kortunum. Á komandi ári ætlar fyrirtækið að tengja milli 30 og 40 þúsund heimili við Ljósnetið, 4G-væðast og koma snjallsímaskóla formlega í framkvæmd. Í viðtali mbl.is við Sævar Frey Þráinsson, forstjóra Símans, segir hann að fyrirtækið hafi á árinu leitað leiða til að auka samkeppni við Farice og vegna þess leitað til margra um samstarf.
Sævar hefur verið forstjóri Símans síðustu 5 ár, en starfað hjá fyrirtækinu í 17 ár. Hann segir árið vera eftirminnilegt fyrir margra hluta sakir, en meðal annars sé mikið starf starfsmanna eftir hrunárin farið að skila sér og búið sé að styrkja undirliggjandi rekstur Símans mikið. „Það hefur reynt á alla innviði að hafa reksturinn stöðugt undir smásjá en starfsfólkið hefur verið jákvætt og tekið höndum saman svo vel hefur tekist til.“
Aðspurður hvað standi upp úr þegar litið sé yfir árið segir hann að ljósnetsvæðingin vegi þar þungt, en einnig hafi árið 2012 verið ár snjallsímanna. Á árinu hafi 22 þúsund heimili verið tengd við ljósnetið og eru þau þar með samtals orðin 62 þúsund. Það verði alltaf ljósara hversu órjúfanlegur hluti fjarskipti séu af lífi fólks. Nefnir hann í því samhengi mikla fjölgun snjallsíma og aukna notkun þeirra við að vafra um netið.
Hann telur mikilvægt að allir aldurshópar séu þátttakendur í þessari þróun og kynslóðir séu þar ekki skildar eftir. „Hér elst upp kynslóð sem kann að lesa nýju tæknina. Við viljum gegna því mikilvæga hlutverki að aðrir læsist ekki í gamla tímanum og hafi möguleika á að nýta sér tæknina og fylgja yngri kynslóðinni eftir. Það er mikilvægt fyrir þjóð sem vill vera í fremstu röð“ segir Sævar.
Á næsta ári ætlar Síminn að hrinda af stað snjallsímaskóla vegna þessa verkefnis, en Sævar segir að þar verði fólki meðal annars kennt hvernig það sæki snjallsímaforrit og vinni á bæði símana og spjaldtölvur. „Þegar hafa viðskiptavinir komið í snjallsímakennslu og líkað vel.“
Meðal sóknartækifæra Símans á komandi ári er að sögn Sævars að leggja áherslu á skýjalausnir (e. cloud computing), með það fyrir augum að hagræða í upplýsingatækni hjá fyrirtækjum. „Notendur hafa vanist því að grípa til skýjalausna og það er mikilvægt að tryggja að lítil og meðalstór fyrirtæki hafi greiðan aðgang að þekkingu og þjónustu sem geri þeim mögulegt að nýta slíkar lausnir.“ Í því samhengi segir Sævar að öryggið sé mikilvægast og nálægð við þjónustuaðila þegar fyrirtæki noti skýjaþjónustu innanhúss.
Síminn hefur boðið upp á þjónustu sem kallast Vist og er að sögn Sævars orðin að tölvudeild sumra fyrirtækja. Skýjalausnir geti verið hagkvæmari fyrir ákveðna aðila. Segir hann að þannig megi ná fram stærðarhagkvæmni hjá miðlungsstórum fyrirtækjum sem hafi sambærilegar þarfir í upplýsingatæknimálum.
Póst- og fjarskiptastofnun mun á fyrsta fjórðungi næsta árs bjóða út tíðniheimildir fyrir fjórðu kynslóð farsímaneta. Síminn hyggst taka þátt í því útboði. Sævar segir að Síminn sé reyndar nú þegar orðinn nokkuð 4G-væddur í þeim skilningi að kerfi Símans bjóði í raun upp á hraða og upplifun sem sé í líkingu við 4G.
Síðustu ár hafa fjarskiptafyrirtæki þurft að greiða mismunandi lúkningargjöld. Þetta hefur verið gert til að auðvelda fleiri aðilum að starfa á markaðinum og koma í veg fyrir fákeppni með jákvæðri mismunun. Þann 1. janúar næstkomandi mun þetta gjald lækka mikið og verður þá öllum félögum gert að greiða 4 krónur til að tengjast hvert öðru. Þann 1. júní lækkar þetta gjald svo enn frekar og verður félögum þá leyft að rukka 1,66 krónur á hverja tengingu.
Sævar segir að þetta muni væntanlega einfalda verðskrá fjarskiptafyrirtækja, en vill ekki gefa upp áhrifin á verðlagningu. „Það er engin regla að verðskrár þurfi að vera jafn flóknar og þær hafa verið undanfarin ár. Það mun svo koma í ljós hvort fyrirtækin hafi getu til að lækka verðið í kjölfarið.“ Segir hann að nettóáhrifin verði þó aldrei meiri en nokkrir tugir milljóna á ári og það séu ekki háar upphæðir í heildarsamhenginu. Hann segir þó að þróunin á fjarskiptamarkaði vegna þessa breytinga verði mjög fróðleg.
Í sumar sagði Farice upp samningi sínum við fjarskiptafélögin og í kjölfarið þurftu þau að semja aftur. Var um nokkra hækkun að ræða, en Sævar segir að Síminn hafi ákveðið að setja aðeins lítinn hluta þeirrar aukningar út í verðið í október síðastliðnum.
„Það er mikilvægt að hafa tengingar út úr landinu og það þarf að sýna ábyrgð við að tryggja tengingu við umheiminn þar sem fjarskipti eru orðin stór hluti af daglegu lífi,“ segir hann og bendir á að mikilvægt sé að samkeppni komist á á þessum markaði á næstu árum. Segir hann að Síminn hafi verið í viðræðum við aðra aðila um möguleg skref í þá átt. „Það tekur tíma að koma slíku á og við höfum verið að skoða marga valkosti í þessum efnum og rætt við marga, en það er ekkert sem er orðið tímabært að tjá sig um á þessu stigi.“
Þegar talið berst að efnahagslífinu bendir Sævar á mikilvægi þess að stjórnvöld tryggi stöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja. „Þetta er ekki síst mikilvægt þegar horft er til gjaldeyrisskapandi greina á borð við sjávarútveg, orkufrekan iðnað og ferðaþjónustu.“ Þá eru menntamálin ofarlega í huga Sævars sem segir að fjármagn í menntun sé of lítið. „Það verður að forgangsraða þannig í ríkisrekstrinum að við leggjum miklu meira fé í menntun, sérstaklega tæknimenntun. Þannig náum við að auka framleiðni í hagkerfinu.“ Segir hann skort á tæknimenntuðu fólki vera viðvarandi og að hann muni ekki eftir öðru eins ástandi hér á landi síðan hann fór að starfa á þessum vettvangi.
Sævar segir að brýnt sé að koma fjárfestingum í gang aftur þar sem þær keyri hagkerfið áfram. Segir hann að Skiptasamstæðan muni fjárfesta fyrir um 7 milljarða króna á árunum 2012 og 2013, en það er sama upphæð og Reykjavíkurborg ætlar að fjárfesta fyrir á árinu 2013. „Þetta eru einkum fjárfestingar í fjarskiptakerfum og innviðum en slíkar fjárfestingar eru afar mikilvægar fyrir samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.“