Heimsmarkaðsverð olíu hækkaði í byrjun dags í kjölfar þess að samkomulag tókst á Bandaríkjaþingi um aðgerðir í ríkisfjármálum um áramótin. Brent Norðursjávarolía hækkaði um 91 sent og fór upp í 112,02 Bandaríkjadollara á tunnu og í New York hækkaði verðið um 1,23 dollara í 93,05 dollara á tunnu.
Með samkomulaginu kom Bandaríkjaþing í veg fyrir miklar skattahækkanir og samdrátt í ríkisútgjöldum. Það veikti aftur á móti gengi dollarans sem gerir það að verkum að olía verður ódýrari í löndum sem notast við aðra gjaldmiðla og leiðir að jafnaði til meiri eftirspurnar. Slíkt ýtti upp verðinu í morgun.
Bandaríska þingið á aftur á móti mikið verk fyrir höndum, því samkomulagið náði aðeins til þess að fresta breytingum í tvo mánuði. Ef ekki verður samið endanlega á þeim tíma gæti bandarískt efnahagslíf aftur verið á barmi kreppu í byrjun mars.