Raunhæft að veltan aukist um 250 milljarða á 10 árum

Íslenski sjávarklasinn sér fyrir sér að veltuaukning á næstu 10 …
Íslenski sjávarklasinn sér fyrir sér að veltuaukning á næstu 10 árum geti numið um 250 milljörðum á ári. Halldór Sveinbjörnsson

Það er vel raunhæft að íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi og tengdum greinum, sem einu nafni nefnist „sjávarklasi“, geti aukið ársveltu sína um allt að 250 milljarða á næstu tíu árum. Til þess þurfa þó fjárfestingar í nýsköpun að aukast umtalsvert. Þetta kemur fram í nýrri greiningu sjávarklasans sem hagfræðingarnir Þór Sigfússon og Haukur Már Gestsson hafa unnið.

Segir þar að í nýlegri skýrslu frá Nordic Innovation komi fram að nýsköpunarfjárfesting þurfi að aukast um 30 milljarða á ári svo að Ísland sé samanburðarhæft við Norður-Ameríku. Telja hagfræðingarnir að augljósasta leiðin til þess að auka nýsköpun í sjávarklasanum sé að bjóða sjávarútvegsfyrirtækjum að greiða umtalsvert lægra veiðileyfagjald ef þau fjárfesta í nýsköpun og tækni.

Í greiningunni er mögulegri aukningu skipt í 8 flokka, en það eru sjávarútvegur, tæknifyrirtæki, fiskeldi, lífvirk efni hafsins, slógvinnsla, mjöl- og lýsisvinnsla, þjónusta við erlend skip og alþjóðleg ráðgjöf. Kemur fram að raunhæft sé að auka veltuna um 250 milljarða til ársins 2023 þannig að heildarvelta greinarinnar verði rúmlega 690 milljarðar króna.

Mikil tækifæri í tæknigeiranum og slógvinnslu 

Mest munar þar um áætlaða veltuaukningu í tæknigeiranum, en þá er átt við tæknifyrirtæki sem tengjast hafinu hérlendis. Í dag er velta slíkra fyrirtækja um 32 milljarðar, en miðað við þann vöxt sem hefur verið í greininni má gera ráð fyrir að þessi atvinnugrein geti aflað tekna árið 2023 sem nema um 130 milljörðum króna.

Gert er ráð fyrir að slógvinnsla aukist hlutfallslega mest, en greiningarhöfundar gera ráð fyrir að velta í greininni geti farið úr um hálfum milljarði í dag upp í 20 milljarða árið 2023, eða aukning um 45% á ári. Þar á eftir koma fiskeldi og þróun á lífvirkum efnum, þar sem velta gæti aukist um allt að 25% á ári næstu 10 árin. Einnig skipar sjávarútvegurinn stóran sess, en áætlað er að velta hans geti aukist um 90 milljarða á tímabilinu, þótt það sé aðeins um 2,5% aukning á ári.

20-30 milljarðar á ári í fjárfestingar

Líklegt er að fjárfestingar í nýsköpun og tækni í sjávarklasanum þyrftu að nema um 8-10% af tekjum til þess að þessi markmið náist að sögn greiningaraðilanna, en auk þess væru fjárfestingar í nýjum greinum eins og líftækni, þar sem fjárfestingar væru fyrst um 
sinn mun meiri en tekjur. Það þýðir með öðrum orðum að fjárfestingar í sjávarklasanum þyrftu að vera 20-30 milljarðar á ári á næstu árum.

Veltutölur fyrir flokkana 8 sem sjávarklasanum er skipt niður í.
Veltutölur fyrir flokkana 8 sem sjávarklasanum er skipt niður í. Sjávarklasinn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK