Frumlegar verkfræðilausnir á Langjökli

Hér má sjá íshelli sem náttúran myndaði. Verkfræðingar hjá Eflu …
Hér má sjá íshelli sem náttúran myndaði. Verkfræðingar hjá Eflu sjá fyrir sér að grafa ísgöng sem myndu endast í langan tíma. Árni Sæberg

„Ísinn er orðinn tær og fallegur á þessu dýpi“, en það getur gert hann áhugaverðari og skemmtilegri sjón fyrir ferðamenn segir Reynir Sævarsson, verkfræðingur hjá EFLU verkfræðiskrifstofu. Hann hefur ásamt fleiri samstarfsaðilum sínum unnið að því verkefni að skoða möguleika á að búa til ísgöng inn í Langjökul þar sem hægt væri að fara með ferðamenn og búa til nýjan möguleika fyrir spennandi ferðir í vaxandi flóru áhugaverðra staða til að skoða hérlendis.

Þrátt fyrir færri verkefni á Íslandi eftir hrun sitja verkfræðingar ekki með auðar hendur og sýnir verkefnið á Langjökli það vel. Með því segir Reynir að fyrirtækið sé að stíga eitt skref í að auka nýsköpun hérlendis með nýjum og frumlegum lausnum, enda segir hann að slagorð EFLU sé „allt mögulegt“.

Mikill þrýstingur og möguleg færsla jökulsins

Hugmynd þeirra gengur út á að búa til 300 metra löng göng inn í jökulinn sem fara niður á um 30 metra dýpi. Í fyrsta áfanga er áætlað að grafa lárétt göng til að kanna aðstæður og gera mælingar. Þau göng verða síðar neyðarútgangur og þjónustugöng, en Reynir segir að mun áhugaverðara sé fyrir ferðamennina að gera skemmtilega hlykkjótt göng, en það bíður einnig uppá fleiri tækifæri varðandi til dæmis fræðslu.

Á 30 metra dýpi er ísinn orðinn mjög tær og fallegur, en það eru þó ýmsar áskoranir sem geta komið upp og verkfræðingarnir hafa þurft að leysa síðustu misseri. Í fyrsta lagi er þrýstingurinn orðinn nokkuð mikill á þessu dýpi. „Þegar við erum komin á þetta dýpi er þrýstingurinn það mikill að jökullinn hnígur saman“ segir Reynir, en sprungur lokast til að mynda af sjálfu sér á þessu dýpi. Þetta hefur þau áhrif að það verður færsla um nokkra sentímetra á ári á ísnum, en það er að sögn Reynis ekki vandamál og segir hann að jökullinn sé vel viðráðanlegur.

Fréttablaðið sagði fyrst frá verkefninu á miðvikudaginn, en það gæti laðað til sín tugþúsundir gesta á ári. Ætlunin er að hafa opið í um 1250 metra hæð yfir sjávarmáli, sem er um 7 kílómetra upp á jökulinn í suðaustur átt frá fjallaskálanum Jaka. 

Reynir segir að í þessari hæð sé jökullinn í jafnvægi, þar sé ákoma og bráðnun svipuð og því sé staðurinn tilvalinn fyrir verkefni sem þetta. 

Engin gisting

Þegar hann er spurður um það hvort ætlanir séu um að skoða að bjóða ferðamönnum upp á að gista í íshellum segir Reynir að svo sé ekki. „Það eru engar hugmyndir um slíkt hjá okkur núna“ og bætir við að slíkt krefjist mun meiri aðstöðu og kostnaðar. Þetta verkefni sé í sjálfu sér ekki svo dýrt.

Reynir segir að starfsmenn EFLU hafi unnið þetta fyrst og fremst vegna eigin áhuga á málefninu. Hugmyndirnar hafi í grunninn komið frá ferðaþjónustuaðilum á svæðinu og að samvinna hafi verið við fjölda aðila sem þekki til og tengist svæðinu þegar unnið var að hönnun og skipulagi.

Fjárfestar eru næsta skrefið

Jökulgöngin eru fyrst og fremst hugsuð sem áfangastaður eins og hellar eru í dag segir Reynir. Það þurfi aðeins að græja fólk rétt upp og svo sé það leitt í gegnum áhugaverða staði sem það sjái alla jafna ekki. Þarna fái það að sjá jökulinn á allt annan hátt en það almennt gæti gert og í sínu náttúrulega umhverfi. Einnig er ætlunin að hafa ýmsan fróðleik um íslenska jökla í göngunum, rannsóknir á þeim og áhrif hnattrænnar hlýnunar á bráðnun jökla.

Þótt Umhverfisstofnun hafi ekki talið framkvæmdina hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif er þetta mál langt í frá að vera fullunnið að sögn Reynis. Skipulagsstofnun eigi eftir að taka ákvörðun um hvort framkvæmdin sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þá þurfi að finna fjárfesta sem sýni verkefninu áhuga og séu tilbúnir að setja einhvern pening í það og svo þurfi að fá framkvæmdarleyfi frá sveitafélaginu og starfsleyfi frá heilbrigðisyfirvöldum. 

Húsnæði Eflu verkfræðistofu
Húsnæði Eflu verkfræðistofu EFLA
Efnisorð: EFLA
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK