Ríkisolíufyrirtækið Petoro er 25% þátttakandi í báðum þeim hópum sem hlutu leyfi til leitar og vinnslu á Drekasvæðinu í morgun. Kjell Pedersen, framkvæmdastjóri félagsins, segir að nægjanlegar vísbendingar um olíu séu á svæðinu svo það teljist mjög áhugavert til frekari rannsókna. Þess vegna hafi það ákveðið að taka þátt. Hann ítrekaði nauðsyn þess að horfa á olíuleit sem langhlaup þar sem tímaramminn væri í áratugum en ekki árum.
„Þegar byggt er á gögnum sem Noregur hefur frá svæðinu lítur út fyrir að þarna séu merki um að berggrunnurinn sé þeirrar tegundar sem nauðsynlegt er til að finna kolvetni“ segir Pedersen, en hann telur að forskoðanir gefi nægjanlegar vísbendingar til að gera svæðið að mjög áhugaverðum stað fyrir frekari tilraunir.
Pedersen tekur þó fram að olíuiðnaðurinn sé byggður á langtímaverkefnum og nú þurfi að fara í margra ára vinnu við að rannsaka og safna gögnum. Með því geti þeir farið í nánari rannsóknir, til dæmis með bergmálssjá, en það þýði samt ekki enn að farið verði í borun.
Spurður um tímarammann segir Kjell að það sé mismunandi eftir svæðum og nefnir í því samhengi að á einu svæði í Noregi hafi liðið 30 ár síðan rannsóknir hófust þangað til farið var í boranir. Aftur á móti sé tímaramminn venjulega nokkuð styttri, en þetta taki alltaf lengri tíma en fólk vonist til.
„Á næstu 10 árum er ekki mjög líklegt að við náum að hefja framleiðslu“ segir hann og bætir við að horfa eigi til rúmlega 10 ára til að sjá raunverulegan árangur af svona verkefnum og á þá við þegar möguleiki er á að fyrsta olíunni verði dælt upp.