„Við erum bjartsýnir og þess vegna koma Norðmenn að þessu með beinni eignaraðild,“ sagði Ole Borten Moe, olíu- og orkumálaráðherra Noregs, í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann taldi aðspurður of snemmt að tjá sig um mögulegan árangur af olíuleit við Jan Mayen.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að Orkustofnun gefur í dag út tvö sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Það eru annars vegar íslenskt útibú Faroe Petroleum Norge AS og Íslenskt kolvetni ehf. og hins vegar Valiant Petroleum ehf. og Kolvetni ehf. sem fá fyrstu sérleyfin. Leyfin verða undirrituð í dag. Ole Borten Moe, olíu- og orkumálaráðherra Noregs, verður viðstaddur undirritun sérleyfanna en norska ríkisolíufélagið Petoro tekur þátt í báðum sérleyfunum.
„En það undirstrikar að málið er komið á meiri skrið að Noregur er að fara inn í þetta á fullu, í fyrsta lagi með þátttöku sinni hér og svo í öðru lagi með undirbúningi sín megin,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.