Fimm fyrirtæki standa á bak við hópana tvo sem fengu úthlutað leyfum til leitar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu í morgun. Talað hefur verið um þetta sem fyrsta skrefið í olíuævintýri Íslendinga. Forsvarsmenn fyrirtækjanna, auk ráðamanna, hafa þó reynt að draga úr væntingum með því að segja að olíuleit sé bæði langhlaup og að niðurstaða tilrauna og kannana þurfi ekki endilega að vera jákvæð. Það séu því ennþá miklir óvissuþættir í málinu.
Þegar fyrstu fréttir af því hvaða fyrirtæki það væru sem stæðu á bakvið tilboðin komu í byrjun desember fjallaði mbl.is um það hverjir stæðu á bakvið fyrirtækin. Meðal annarra er þar um að ræða Jón Helga Guðmundsson í Byko, Mannvit, Olís, Verkís og hæstaréttarlögmanninn Gísla Baldur Garðarsson, sem áður var einn meirihlutaeigenda í Olís.
Kolvetni ehf. er í Jóns Helga Guðmundssonar í Byko, Gunnlaugs Jónssonar, ráðgjafafyrirtækisins Mannvits og Terje Hagevang. Skiptast eignahlutar jafnt milli aðila en Jón Helgi og Gunnlaugur eiga jafnframt lítinn hluta í Valiant Petroleum vegna kaupa þess á Sagex Petroleum ehf. (áður GeysirPetroleum hf.) sem þeir áttu hlut í.
Valiant Petroleum er breskt félag sem er skráð á markað í London. Stærstu hluthafar félagsins eru AXA Investment Managers og stjórnendur félagsins með samtals 22,4% hlut.
Þriðja umsóknin kemur frá Faroe Petroleum og Íslensku kolvetni ehf. Hið síðarnefnda er í eigu Olís, Verkís og Dreka Holding. Framkvæmdastjóri þess er Þorkell Erlingsson og í stjórn félagsins sitja Kristján Jóhannsson, stjórnarformaður, Gísli Baldur Garðarsson hæstaréttarlögmaður, Þröstur Ólafsson, Eldur Ólafsson og Valgarð Már Valgarðsson.
Faroe Petroleum er færeyskt félag sem líkt og Valiant Petroleum er skráð í kauphöllina í London, en stærsti hluthafi félagsins er Dana Petroleum.