Öll lánshæfisfyrirtækin sem meta lánshæfi ríkissjóðs hafa ítrekað í tilkynningum sínum mikilvægi Icesave-málins fyrir lánshæfismatið, enda hefur niðurstaða þess mikil áhrif á stöðu ríkissjóðs. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka. Nýlegt mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er á þá leið að sæki Bretar og Hollendingar vaxtakröfur á hendur íslenska ríkinu í kjölfar taps fyrir EFTA-dómstólnum, en málaferlin í kjölfarið fara á besta veg, hafa þau í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð sem nemur á bilinu 3,5% til 6,0% af vergri landsframleiðslu.
Ef niðurstaðan fer hins vegar á versta veg gæti kostnaðurinn orðið allt að 20% af landsframleiðslu. Miðað við áætlaða landsframleiðslu nýliðins árs munar þarna á milli 285 milljörðum króna, sem óhætt er að segja að sé dágóð upphæð fyrir ríkissjóð, segir greiningin jafnframt.
Moody´s er eina matsfyrirtækið sem er með lánshæfismat ríkissjóðs á neikvæðum horfum, en einkunnir ríkissjóðs eru Baa3/P-3 hjá fyrirtækinu. Í bókum matsfyrirtækjanna Standard & Poor`s og Fitch Ratings eru einkunnir ríkissjóðs stöðugar, og eru einkunnir ríkissjóðs fyrir skuldbindingar í erlendri mynt BBB-/A-3 hjá fyrrnefnda fyrirtækinu en BBB-/F3 hjá hinu síðarnefnda. Ef lánshæfismat ríkissjóðs verður lækkað hjá þessum fyrirtækjum er ríkissjóður kominn með einkunnir í spákaupmennskuflokki, enda er hann nú aðeins einu þrepi frá því að detta niður í þann flokk einkunnar.
Í gær birti EFTA-dómstóllinn tímasetningu dómsuppkvaðningarinnar í Icesave-málinu, það er í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn íslenska ríkinu. Samkvæmt henni verður dómurinn kveðinn upp hinn 28. janúar næstkomandi kl. 10:30 að íslenskum tíma. Þar verður þó hvorki skorið úr um greiðsluskyldu íslenska ríkisins né skaðabótaábyrgð með beinum hætti, en hugsanlega verður þó hægt að álykta um það út frá niðurstöðu dómsins.