Ísland er frumkvöðlasvæði

Guðni A. Jóhannsson, orkumálastjóri, undirritar sérleyfin fyrir Drekasvæðið í morgun.
Guðni A. Jóhannsson, orkumálastjóri, undirritar sérleyfin fyrir Drekasvæðið í morgun. mbl.is/Styrmir Kári

Ef farið verður í boranir á Drekasvæðinu verður það með borskipi en ekki frá borpalli eins og þekkist víða. Þetta segir Guðni A. Jóhannsson, orkumálastjóri, en ástæðan er mikið dýpi á svæðinu. Hann segir að þátttaka norska ríkisins treysti mjög samstarf ríkjanna við olíuleit á svæðinu og styrki framkvæmdina. Hann segir að með tilraunum á svæðinu muni einnig koma í ljós hvort frekari auðæfi reynist á landgrunni Íslendinga, en verið er að ganga frá landgrunnslínum milli Noregs og Íslands.

Guðni segir að boranir muni hefjast á næsta ári Noregsmegin, en það verði þó grunnar tilraunaboranir sem fari aðeins niður á um 200 metra. Boranirnar séu ekki til að finna olíulög, heldur til að kanna bergið og undirbyggja mælingar. „Ef þetta gengur eftir áætlun, þá erum við að horfa til um 10 ára þegar borun með vinnslu í huga gæti hafist“ segir hann.

En það er ekki bara olían sem gæti leynst á hafsbotninum. Guðni segir að með auknum rannsóknum megi skoða hvað annað geti þar fundist. „Jarðfræði Norður Atlantshafsins og botninn er frekar ókannað svæði í raun og veru og það á eftir að athuga hvað gæti verið þar til af málmum og öðru. Nú er verið að semja um þessi svæði og ganga frá landgrunnslínum og Íslendingar fara að sjá hvað þeir eiga og þá er mikilvægt að vinna að því að sjá hvaða auðævi geta verið á hafsbotni.“

Frumkvöðlasvæði við Ísland

„Við erum það sem kallast frumkvöðlasvæði og á mörkum þess að þekking sé næg til að menn vilji bjóða í verkefnið. Því er mikilvægt að fá aðila sem bæta þekkinguna og þá eru það þessi minni fyrirtæki sem sérhæfa sig í leit á svona svæðum eins og Faroe Petroleum og Valiant Petroleum“ segir Guðni, en hann telur að það sé alls ekki neikvætt að risarnir á olíuleitarmarkaðinum hafi ekki tekið þátt í þessu útboði. 

Telur hann að fyrirtækin hafi jafnvel betri þekkingu á svæðinu en önnur stærri: „Ég held að þau fyrirtæki sem bjóði hafi þekkingu á jarðfræðinni á þessum slóðum sem ekki er til víða annarsstaðar“, en meðal þeirra sem koma að leitinni er Terje Hagevang, framkvæmdastjóri norska hluta Valiant Petroleum og olíuleitarstjóri hjá breska móðurfélaginu. Hann skrifaði meðal annars doktorsritgerð sína um Jan Mayen svæðið og hefur sagt að hann telji olíu- og gasbirgðir á svæðinu sambærilegar við það sem finnst í Norðursjó.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK