Nauðsynlegt að hafa fæturna á jörðinni

Við undirritunina í morgun
Við undirritunina í morgun mbl.is/Styrmir Kári

Í morgun undirritaði orkumálastjóri leitar- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu fyrir hópa sem höfðu sótt um í öðru útboði Orkustofnunar. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra segir að það sé mikill styrkur af því að fá norska þátttöku í málið, en ríkisolíufélagið Petoro nýtti sér ákvæði í samningi milli Íslands og Noregs og verður 25% þátttakandi í báðum umsóknunum. Segir hann nauðsynlegt að hafa fæturna á jörðinni þar sem þetta skref sé ekki ávísun fund á allra næstu árum, heldur geti leitin tekið 5 til 10 ár.

„Við höfum átt í mjög góðu samstarfi við Noreg, bæði milli ráðuneyta og stjórnsýslunnar sem koma við sögu og þetta mun frekar en hitt auka á það“ segir Steingrímur, en hann segir að fyrirtækin sjálf muni þó eiga mestan þátt í auknu samstarfi á fyrstu árum rannsóknanna. 

Hann segir þátttöku norska félagsins ekki síður vera fréttir en undirritun leyfanna í dag, en það gefi verkefninu meiri kraft. „Við lítum á það sem mikinn styrk fyrir málið að fá norska þátttöku. “ Norðmenn munu á næsta ári opna svæðið sín megin, þegar norska þingið hefur samþykkt málið. Í framhaldinu munu þeir einnig fara í útboð á svæðinu sín megin. „Við búumst við því innan tveggja ára verði málið komið af stað líka Noregsmegin við línuna og skiljanlega hafa þeir áhuga á að vera með á í leyfunum á Drekasvæðinu okkar megin“ segir Steingrímur.

Þrátt fyrir góð fyrirheit segir Steingrímur nauðsynlegt að hafa fæturna á jörðinni. „Þetta er ekki ávísun á olíu- eða gasvinnslu á allra næstu árum. Það er miklu líklegra að framundan sé 5 til 10 ára könnun á svæðinu áður en umsóknir bærust um boranir.“

Bent hefur verið á að enginn af risunum, sem meðal annars hafa sótt um leitar- og vinnsluleyfi á færeyska og grænlenska landgrunninu, sótti um leyfi hér við land. Steingrímur segir að Ísland hafi breytt laga- og skattaumhverfinu í samræmi við nágrannalöndin og segir ekkert í umgjörðinni sem hafi þar áhrif. Það sé frekar áhættan og tiltrú manna á lítið skoðuðum svæðum sem hafi áhrif. „Félög sem eiga kost á því að sækja um í Barentshafi eða Norðursjónum, þar sem málið er þekkt og liggur fyrir, þau líta kannski á það sem öruggari kost heldur en að nema nýtt land þarna [á Drekasvæðinu]“

Ekki er búið að ákveða næstu skref í olíuævintýrinu og hvort eða hvenær farið verður í næsta útboð, en svæðið býður upp á pláss fyrir fleiri leyfi. „Það er pláss fyrir fleiri ef út í það er farið og það verður metið þegar að því kemur“ segir Steingrímur

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK