Næsta skref farsímaþróunar verður brátt stigið hérlendis, en á föstudaginn þurfa umsóknaraðilar að skila inn gögnum til skráningar í tíðniuppboð Póst- og fjarskiptastofnunar vegna háhraðafarnetsþjónustu. Uppfylli umsóknaraðilar öll skilyrði til þátttöku, svo sem um fjárhagslega stöðu og tæknilega getu, fá þeir að taka þátt í uppboðinu sem hefst mánudaginn 11. febrúar. Í framhaldinu geta símafyrirtækin boðið upp á 4G-þjónustu til viðskiptavina sinna.
Póst- og fjarskiptastofnun mun bjóða upp tíðniheimildir fyrir farsíma- og farnetsþjónustu á 800 milljónum sekúnduriða (MHz) og 1800 MHz tíðnisviðunum. Á síðu stofnunarinnar segir: „Boðin verða upp 60 MHz (2x30 MHz) í samtals fimm tíðniheimildum á 800 MHz tíðnisviðinu og 50 MHz (2x25 MHz) í fimm tíðniheimildum á 1800 MHz tíðnisviðinu. Tíðniheimildir á 1800 MHz verða tæknilega hlutlausar. Tíðniheimildirnar á 800 MHz tíðnisviðinu heimila notkun á hlutaðeigandi tíðnum fyrir farnetsþjónustu og eru bundnar ákveðnum lágmarkskröfum um útbreiðslu og uppbyggingu háhraðafarnetsþjónustu.“
Meðal skilyrða sem stofnunin setur er að útbreiðsla háhraðatenginga til einstaklinga verði á bilinu 93,5% upp í 99,5%. Lágmarkstilboð í heimildir er frá 5 milljónum upp í 100 milljónir, en samtals verða 10 leyfi boðin upp.
Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir í samtali við mbl.is að ákvæði í uppboðinu komi í veg fyrir að einn og sami aðilinn geti fengið öll leyfin, en tvö til tíu fyrirtæki gætu keypt þau.
Stóru símafyrirtækin þrjú munu öll taka þátt í uppboðinu, en hingað til hefur Nova verið eitt fyrirtækja með tilraunaleyfi á tækninni. Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, staðfesti við mbl.is að Nova myndi taka þátt í uppboðinu. „Nova ætlar sér að halda þessu leiðandi hlutverki í þráðlausum samskiptum hér á landi,“ segir Liv.
Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, staðfestir að fyrirtækið muni einnig taka þátt og í viðtali við mbl.is nýlega sagði Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, að það yrði þátttakandi í uppboðinu.