Fremur lítill afgangur var af vöruskiptum við útlönd í desember samkvæmt bráðabrigðatölum sem Hagstofa Íslands birti nú í morgun. Þannig voru fluttar út vörur fyrir um 45,0 milljarða í mánuðinum á sama tíma og vöruinnflutningur nam 40,0 milljörðum. Voru vöruskiptin því hagstæð um 5,0 milljarða í desember, sem er talsvert undir þeim 6,7 milljarða afgangi sem hafði að jafnaði verið í mánuði hverjum á fyrstu ellefu mánuðum nýliðins árs. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka, en bent er á að vöruskiptaafgangurinn fari lækkandi.
Miðað við ofangreindar bráðabirgðatölur var vöruskiptaafgangurinn í fyrra 80,6 milljarðar. Er þetta talsvert minna en sá 97,1 milljarðs afgangur sem var árið á undan, en í krónum talið minnkar afgangurinn um 17% á milli ára. Skýrist það af hraðari vexti innflutnings en útflutnings á tímabilinu.