Eyþór Ívar Jónsson hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri Klaks - Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, en hann hefur starfað þar í fimm ár. Segir hann að þetta sé góður tímapunktur, þar sem Klak skili hagnaði og búið sé að tryggja rekstur næstu tveggja ára.
Í tilkynningu segir Eyþór að áhugavert sé að horfa yfir farinn veg og velta því fyrir sér hvort eitthvað hafi áunnist á þessum vettvangi. Nefnir hann meðal annars Viðskiptasmiðjuna – Hraðbraut nýrra fyrirtækja. Þar hafi ellefu þriggja mánaða hraðlar verið haldnir frá árinu 2008 þar sem um 200 námskeið hafa verið kennd með fleirum en 50 kennurum og 100 gestafyrirlesurum.
Einnig hafi Seed Forum Iceland verið á vegum Klaks og á síðustu fimm árum hafi verið haldin tíu 100 til 200 manna sprotaþing. Auk þess kom Klak að uppbyggingu tveggja sprotasetra. „Við byggðum upp tvö sprotasetur á þessum tíma, annað í gamla Morgunblaðshúsinu og hitt í O2 - gamla HR. Frumkvöðlasetrið í O2 var byggt upp á tveimur árum og er stærsta og öflugasta frumkvöðlasetur landsins, þar sem fyrirtæki eins og Meniga og Mentor hafa haft aðstöðu.“
Eyþór segir að Klak hafi ekki verið byggt upp þannig að það ætti að skila hagnaði af hverju verkefni. Margir hafi jafnvel sagt að þetta væri ekki skilvirkt viðskiptamódel. Þetta hafi samt gengið vel hingað til og á krepputímum hafi þetta verkefni stækkað mikið. „Það var kreppa á Íslandi en við buðum til veislu. Við opnuðum dyrnar og buðum öllum að sækja sér þekkingu og hvatningu.“
Hægt er að lesa tilkynninguna í heild hér.