Lífeyrissjóðirnir auka við hlutabréf

Lífeyrissjóðir hafa aukið nokkuð við hlutabréfasöfn sín og hefur það …
Lífeyrissjóðir hafa aukið nokkuð við hlutabréfasöfn sín og hefur það ekki verið hærra síðan 2008. Ómar Óskarsson

Það lítur út fyrir að lögbundin raunávöxtun lífeyrissjóðanna náist á síðasta ári, í fyrsta sinn síðan 2006. Viðmið sjóðanna er 3,5%, en síðustu 12 mánuði hefur raunaukning þeirra verið 7,6%. Þrátt fyrir það var aukning eigna sjóðanna í nóvember nokkuð lægri en aðra mánuði ársins, þegar hún var aðeins 10 milljarðar, samanborið við um 22 milljarða hækkun í öðrum mánuðum. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka, en þar er einnig bent á að hlutabréfaeign sjóðanna hafi ekki verið hærri síðan árið 2008.

Erlendar eignir sjóðanna jukust um 3,5 milljarða að sögn greiningarinnar og námu í lok nóvember 531 milljörðum eða sem nemur 22,7% af heildareignum sjóðanna. Þessi aukning í erlendum eignum er væntanlega tilkomin vegna hækkunar hlutabréfaverðs á erlendum mörkuðum í mánuðinum að því er greiningardeildin segir.

Innlendar eignir sjóðanna jukust þó öllu meira, eða um 26 milljarða og námu innlendar eignir sjóðanna 1.691 milljörðum í lok nóvember. Eignir sjóðanna  í innlendum skuldabréfum og verðbréfasjóðum jukust um 14 milljarða í nóvember og nemur sú eign sjóðanna nú 1.332 milljörðum eða sem nemur 57% af heildareignum sjóðanna.

Eign sjóðanna í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum jókst um 12 milljarða og nam sú eign sjóðanna nú í lok nóvember samtals 184,6 milljörðum, eða sem nemur 7,9% af heildareignum þeirra. Hefur þetta hlutfall ekki verið svo hátt síðan í september 2008 þegar 8,5% af eignum sjóðanna var í þessum eignaflokki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK