Segir leikreglurnar óréttlátar og vill stofna samtök smærri fyrirtækja

Sigurjón M. Egilsson, blaðamaður og útgefandi.
Sigurjón M. Egilsson, blaðamaður og útgefandi. Þorsteinn Ásgrímsson

Hækkun tryggingargjalds hefur komið illa niður á smærri fyrirtækjum þar sem launahlutfall hækkar mun meira en hjá miðlungsstórum og stórum fyrirtækjum. Þetta leiðir til þess að lítil fyrirtæki aftra sér frá að ráða nýtt fólk og kemur þannig í veg fyrir að þau hjálpi til við að draga úr atvinnuleysi. Þetta var meðal þess sem Sigurjón M. Egilsson, blaðamaður og útgefandi, sagði á skattadegi Deloitte í morgun.

Sagði hann sögu félagsins Goggs ehf. sem hann hefur rekið. Upphaflega hafi starfsmenn verið tveir og tryggingargjaldið 5,34%. Greitt hafi verið um 40 þúsund krónur á mánuði í þennan skatt, en með hækkun upp í 8,65% hafi skatturinn farið í um 64 þúsund á mánuði, eða um 300 þúsund króna aukning  á ári. Það segir hann töluverða upphæð fyrir svo lítið félag. 

Vantaði gagnrýnisraddir minni fyrirtækja

„Hver ákvað þetta og hversvegna var þessi niðurstaða valin? Ég hef grun um að það sé vegna þess að það var enginn til að mótmæla. Enginn frá minni fyrirtækjum sem eru með hátt launahlutfall og höfðu þeirra hagsmuna að gæta að leggja ekki slík gjöld á launin“ sagði Sigurjón.

Sú leið að hækka tryggingargjaldið í stað til dæmis tekjuskatts kemur flatt upp á Sigurjón sem segir það skjóta skökku við að farin sé sú skattaleið að fæla fyrirtæki frá ráðningum til að borga undir atvinnuleysisbætur.

Erfið skilyrði vinnumarkaðsúrræða

Á þessum tíma keypti Goggur talsverða vinnu af verktökum að sögn Sigurjóns. Þegar hann sá auglýsingu vinnumálastofnunar um vinnumarkaðsúrræði hringdi hann og ætlaði að ráða auka starfsmann af atvinnuleysisskrá í stað verktakavinnunnar. Fyrst var spurt um hvort fyrirtækið væri ekki nægjanlega gamalt, þar sem úrræðin væru ekki ætluð nýjum eða ungum fyrirtækjum.

Það var ekki vandamál hjá Goggi, en Sigurjón segir að svo hafi komið skilyrði sem stoppaði þessa ráðningu. Vegna smæðar fyrirtækisins, þar sem aðeins tveir unnu, var ekki hægt að ráða nýjan starfsmann gegnum úrræðið, því þessi aukastarfsmaður mátti ekki vera meira en fjórðungur starfsmanna. Gagnrýndi hann þetta harðlega og sagði það draga úr að minni fyrirtæki tækju þátt í að minnka atvinnuleysið.

Þrátt fyrir þessar mótbárur sagði Sigurjón fyrirtækið hafi stækkað. Mat hann það svo að verktakavinnan hafi verið óhagkvæm og því ákveðið að ráð til fyrirtækisins fimm nýja starfsmenn. Við það hækkaði tryggingargjaldið um 2 milljónir á ári.

Vill sjá stofnun samtaka smáfyrirtækja

Hækkunin á tryggingargjaldinu þýðir að minni fyrirtæki sem voru með 50% launahlutfall nálgast nú hlutfallið 55%. Hjá stærri fyrirtækjum þar sem launahlutfallið er 10% fer hlutfallið eftir breytingu í um 10,5%. „Það eru stjórnendur þessara fyrirtækja sem réðu þessu í gegnum Samtök atvinnulífsins og í stjórnmálum. Við hin komum hvergi nærri.“

Þarna er að hans mati komin veruleg mismunun milli stórra og minni fyrirtækja. Minni aðilarnir fái aldrei að koma að ákvarðanatökunni. Lagði hann fram hugmynd um að stofnuð yrðu samtök smáfyrirtækja sem geti barist fyrir rétti minni fyrirtækjanna.

Leikreglurnar ýti minni fyrirtækjum í gamla farið

Þá gagnrýndi hann að stjórnvöld standi ekki við gefin fyrirheit. Nefnir í því samhengi að áður hafi verið gefið út að tryggingargjaldið myndi lækka. Svo hafi verið ákveðið að fresta því og þar með hafi vissar forsendur brostið í áætlunum fyrirtækisins.  

Í framhaldi af öllu þessu sagðist hann vera kominn með nóg af því að vera „fórnað á skákborði þeirra stóru aftur og aftur, án þess að hafa möguleika á að bjarga sér og að reka fyrirtæki í umhverfi þar sem leikreglunum er breitt fyrirvaralaust.“ Hann hafi því ákveðið að reka allt starfsfólkið og segir að leikreglurnar ýti honum aftur í að fara í verktakakerfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK