Í gær var mikið um að vera í höfuðstöðvum tölvuleikjaframleiðandans CCP í Reykjavík, sem og á starfsstöðvum fyrirtækisins erlendis, þegar tölvuleikir fyrirtækisins, EVE Online og DUST 514, voru tengdir saman í einum og sama sýndarveruleikanum; EVE New Eden Universe.
Þetta þýðir að spilarar beggja leikja geta haft áhrif á framvindu mála hver hjá öðrum, barist og átt í samskiptum sín á milli. Spilarar DUST 514 get jafnfram orðið liðsmenn í þeim fyrirtækjum og liðsheildum sem þegar er að finna í EVE-leikjaheiminum, en frá því EVE Online kom fyrst á markað fyrir um tíu árum hafa spilarar hans stofnað þúsundir fyrirtækja og liða í sýndarheiminum.
Spilarar DUST 514, sem hingað til hafa verið að spila á sérstökum netþjóni voru með breytingunni færðir yfir á sama netþjón og EVE Online-leikurinn hefur verið spilaður á í áraraðir. Um er að ræða nokkuð flókna tæknilega aðgerð þar sem leikjunum var komið á sameiginlegan miðlaraklasa.
Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP sem framleiðir leikinn, segir í samtali við mbl.is að verkefnið hafi verið risastórt og flókið. Líkir hann þessu við það að tengja saman Seðlabanka Íslands og Noregs, þar sem tveir stórir gagnagrunnar mismunandi þjóða séu sameinaðir í einn.
Í dag spila um 400 þúsund manns EVE online, auk þess sem nokkur hundruð þúsund hafa verið í lokuðum tilraunaprufunum fyrir DUST 514. Það er því ekki ólíklegt að fjöldi leikmanna í sameinuðum heimi sé orðinn margfaldur fjöldi íslensku þjóðarinnar. Við það bætist að fljótlega verður leikurinn svo gerður opinn fyrir almennri skráningu og þá er ekki ólíklegt að það bætist töluverður fjöldi í hópinn.
„Það hafa komið hundruð þúsunda inn og hjálpað við að þróa leikinn. Nú erum við að taka öll þeirra gögn og allt þeirra líf og sameina við 10 ára sögu EVE Online. Þetta er allt sameinað á einn þjón og er svo ræst upp saman þannig að allir spilararnir tengist saman,“ segir Hilmar.
Hann segir að samruninn hafi gengið mjög vel, enda hafi miklar prufanir átt sér stað áður en endanleg yfirfærsla var gerð í gær. Meðal annars hafi tugir starfsmanna á Íslandi og í Kína gert fimm tilraunayfirfærslur áður en ákveðið var að framkvæma hana í raun.
Á þessu ári eru 10 ár síðan EVE Online kom út. Fyrirtækið CCP hefur á þeim tíma stækkað gífurlega og eru starfsmenn þess í dag um 500. Árið 2003 þegar leikurinn kom fyrst út voru þeir aðeins 28 og hefur því fjölgað rúmlega átjánfalt á þessum 10 árum.
Næstu mánuðir verða stórir hjá bæði CCP og spilurum leikjanna. Hilmar segir að margt verði gert í tilefni afmælisins í leiknum sjálfum, en auk þess verði EVE fanfest haldin núna 25. apríl í Hörpu. Segir hann góðlátlega að hátíðin hafi stækkað svo mikið undanfarin ár að jafnvel Harpa fari að verða of lítil fyrir hana, en fjölmargir erlendir spilarar leiksins sækja þá Ísland heim.