Ákveðið var að selja tvö fyrirtæki úr eignasafni norska olíusjóðsins í dag þar sem þau brjóta í bága við fjárfestingastefnu sjóðsins. Fyrirtækin sem um ræðir eru Jacobs Engineering og Babcock & Wilcox, en þau eru bæði frá Bandaríkjunum. Sagði sjóðurinn, sem er stærsti opinberi fjárfestingasjóður heims, að ástæðan væri sú að þau tengdust framleiðslu á kjarnorkuvopnum, en slíka tengingu vill sjóðurinn ekki sjá.
Á sama tíma kynnti sjóðurinn að bréf í iðnfyrirtækjunum BAE System og Finmeccanica væru ekki lengur á svörtum lista. Bæði félögin eru þekktir hergagnaframleiðendur og höfðu í sameiningu unnið að gerð kjarnorkuodda fyrir franska herinn. Því samstarfi er nú lokið og framleiðslan hefur verið aflögð.
Þá var þýska fyrirtækið Simens tekið af eftirlitslista sjóðsins, en eftir fjölda ásakana um spillingu innan fyrirtækisins árið 2009 var félagið undir ströngu eftirlitsauga sjóðsins.
Reglur olíusjóðsins segja að ekki megi fjárfesta í fyrirtækjum sem séu ómanneskjuleg, vopnaframleiðendum, tóbaksfyrirtækjum og félögum sem hafa verið fundin sek um að brjóta mannréttindi, valda miklum skemmdum á náttúrunni eða verið viðriðin spillingu.
Meðal félaga sem eru á svarta lista sjóðsins eru meðal annars Boeing, Lockheed Martin, Philip Morris, Wal-Mart og Rio Tinto. Sjóðurinn var stofnaður árið 1990 til að standa straum af kostnaði vegna velferðarkerfisins í Noregi þegar olían klárast.