Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd Alþingis, Einar K. Guðfinnsson og Jón Gunnarsson, óska eftir því að efnt verði til fundar í nefndinni í næstu viku þar sem fjallað verði um rannsóknir vegna olíuleitar á Drekasvæðinu, áform þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga, samninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert þar að lútandi, þau vinnslu- og rannsóknarleyfi sem gefin hafa verið út, skuldbindingar stjórnvalda og annað það er við kemur þessu verkefni. Þetta kemur fram í tilkynningu til fjölmiðla.
„Þess er óskað að á fund nefndarinnar komi fulltrúar þeirra ráðuneyta sem að verkefninu hafa komið, utanríkisráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Einnig verði fulltrúar Orkustofnunar boðaðir á fundinn sem og fulltrúar þeirra fyrirtækja sem hlut eiga að málinu. Þess er ennfremur óskað að fundurinn verði opinn fjölmiðlum,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu frá Einari og Jóni.