Rekstraraðili FARICE-1 og DANICE-sæstrengjanna tilkynnti fyrr í dag að hámarksafkastageta strengjanna yrði aukin sjöfalt á næstu misserum. Örn Orrason, yfirmaður viðskiptaþróunar og sölu hjá Farice ehf., segir í samtali við mbl.is að viðræður við framleiðendur tækjabúnaðar hafi staðið lengi yfir og að þetta skref muni leiða til lægri kostnaðar við framtíðarstækkanir fyrir þjónustuaðila. Hann gerir þó ekki ráð fyrir að verð til neytenda muni lækka strax.
Ákveðið var að fara í samstarf við bandaríska fyrirtækið CIENA um uppfærðan endabúnað, en það mun gera það að verkum að hármarksafkastageta strengjanna fer úr 5.720 gígabitum á sekúndu upp í 38.000 gígabita á sekúndu. Örn segir að framleiðandi strengjanna hafi á síðustu árum orðið nokkuð á eftir í þróun á þessum búnaði og því hafi verið ákveðið að leita til nýs aðila. „Við höfum talað við 5 framleiðendur síðustu 2 árin, en völdum þennan fyrir 4 mánuðum.“
Margt nýtt hefur átt sér stað í þessum geira upp á síðkastið og nefnir Örn til dæmis að sameina tækni í land- og sæstrengjum. „Þeir framleiðendur sem hafa gert búnað fyrir landstrengi hafa verið að færa sig yfir í að setja þá á sæstrengi síðustu 2 árin. Menn hafa náð að endurlífga eldri strengi, til dæmis yfir Atlantshafið, og sparað það að leggja hafi þurft nýja strengi síðustu ár.“
Á síðasta ári var samningi Farice við íslensku netþjónustuaðilana Símann og Vodafone sagt upp og var ástæðan sögð verðskrárbreyting. Nú þegar hefur Síminn samið við Farice, en Vodafone á enn í viðræðum um nýjan samning. Þegar Örn var spurður um það hvort stækkanirnar muni hafa áhrif á verð til þjónustuaðila og neytenda sagði hann að þetta muni fyrst og fremst leiða til þess að allar framtíðarstækkanir fyrir Ísland í framtíðinni verða hagkvæmari. „Það er ákveðinn grunnkostnaður í sæstrengjunum og það þarf að borga þau lán upp. Það má segja að á næstu 5 árum verði þungar afborganir en svo léttist róðurinn eftir það.“
Hann segir það aldrei hafa verið leyndarmál að erlendum aðilum sem koma til landsins og kaupa mikið gagnamagn sé boðið lægra verð. Þannig fáist betri nýting á sæstrengnum og eftir því sem þeim erlendu aðilum fjölgi, þá verði meiri framlegð til að láta Íslendinga borga minna. Segir Örn að vonast sé til þess að á næstu 5 árum geti erlenda og innlenda verðið nálgast hvort annað og einingaverðið á Íslandi lækkað.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, sagði frá því í viðtali við mbl.is fyrir áramót að Síminn væri í viðræðum við aðila um mögulegt samstarf í átt að meiri samkeppni á þessum markaði. Örn segir að þær fréttir hafi ekki haft nein áhrif á þessa tímasetningu Farice, heldur hafi það verið ákveðið fyrir nokkru, enda hafi viðræður tekið allt að tvö ár.