Seðlabankastjóra finnst gengi krónunnar óþægilega lágt, en á föstudaginn hafði krónan ekki verið jafnlágt skráð gagnvart evru síðan 26. apríl 2010. Ríkissjóður ætti að búa sig undir að þurfa ekki að fjármagna sig innanlands frá og með 2014, sem liður í afnámi hafta, þar eð innlendur fjármögnunarkostnaður mun hækka að loknum gjaldeyrishöftum. Þetta kemur fram í frétt á Bloomberg-fréttaveitunni.
Haft er eftir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra að „það sé óþægilegt hversu veikt gengi krónunnar sé, sérstaklega í ljósi þess að verðbólga sé yfir áætlun og kjarasamningar á vinnumarkaðinum séu opnir“ til þess að endursemja.
Segir í greininni að hlutverk Seðlabankans sé nú aðallega að vinda ofan af fjármagnshöftunum án þess að setja þrýsting á gengi krónunnar.
„Við vitum að gengi krónunnar er veikt,“ segir Már í samtali við blaðamann Bloomberg. „Það er vegna þess að innlendir aðilar eru að greiða niður erlend lán sem þeir hafa ekki getað endurfjármagnað á erlendum mörkuðum. Þess vegna verða þeir að skipta krónum yfir í erlendan gjaldeyri.“