Sér vaxtarbrodd í Rússlandi

Iceland Excursions leggur mikið upp úr því að bílaflotinn sé …
Iceland Excursions leggur mikið upp úr því að bílaflotinn sé nýr mbl.is

Mikill uppgangur hefur verið í ferðaþjónustunni síðustu ár og mörg fyrirtæki veðja á að sú þróun muni halda áfram á komandi árum. Ferðaþjónustufyrirtækið Iceland excursions er meðal þeirra, en það hefur verið mjög duglegt að endurnýja bifreiðaflota sinn. Auk þess reisti fyrirtækið nýjar höfuðstöðvar fyrir 410 milljónir í Klettagörðum í fyrra. Mbl.is ræddi við Þóri Garðarsson, sölu og markaðsstjóra félagsins, um stefnu í bílamálum og væntanleg tækifæri.

Í dag vinna um 90 til 100 manns hjá fyrirtækinu allt árið, en fjölgar upp í um 130 til 140 yfir sumartímann. Þórir segir að í raun séu þau alhliða ferðaþjónustufyrirtæki, enda sé það ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjandi og hópferðafyrirtæki. Þeirra svið nái því allt frá því að skipuleggja langferðir með fjölda ferðamanna um allt landið yfir í að leigja rútur til annarra ferðaskrifstofa.

Árið 2012 var metár í ferðaþjónustu hérlendis. Þórir segir að flestir aðilar í greininni hafi fundið fyrir því og nú sé unnið að því nýta þann meðvind sem Ísland hafi í dag til frekari sóknar. „Þessi aukning ferðamanna hefur skilað sér til okkar og við sjáum ekki annað í kortunum en gott ár. Þetta er afrakstur mikillar markaðssetningar síðustu ár um allan heim til þess að sækja ferðamenn og við höfum nýtt okkur markaðsátakið Ísland allt árið og þar á undan Inspired by Iceland og fylgt á eftir með eigin markaðssetningu.“

Þessa stundina er Þórir staddur í Pétursborg í Rússlandi þar sem um 40 manna hópur Íslendinga er samankominn á kaupstefnu. Hann segir að þar liggi meðal annars ný sóknartækifæri, ekki síst vegna nýrrar áætlunar Icelandair að fljúga beint til Pétursborgar næsta sumar.

Þórir segir að Iceland excursions hafi ákveðið að marka sér þá stefnu að gera út á nýlegan bílaflota. Þannig sé meðalaldur hans aðeins um þrjú og hálft ár. Á þessu ári munu svo bætast við níu rútur sem allar séu 2013 módel. Tvær af þeim eru nú þegar komnar á götuna, en koma hinna dreifist frá febrúar til apríl. Þetta eru á bilinu 12 til 71 farþega bílar og segir Þórir að fyrirtækið sé nokkuð bratt þegar horft sé á komandi sumar.

„Við höfum séð okkur hag í því að reyna að hafa bílaflotann sem yngstan og ekki of mikið keyrða, þannig að þeir séu þá söluvara í raun og veru“ segir Þórir, en flestar rúturnar eru ekki keyrðar mikið meira en 150 til 250 þúsund kílómetra. „Þetta er aðeins dýrara í peningum, en í gæðum margborgar þetta sig“ segir hann.

Fyrirtækið mun í sumar reka 54 hópferðabíla, en að sögn Þóris er stærsta þjónusta þeirra dagsferðir fyrir erlenda ferðamenn. Boðið verður upp á 55 mismunandi ferðir, sem eru allt frá 2,5 klukkustundum upp í um 18 klukkustundir. Ná þær frá Látrabjargi í vestri til Jökulsárslóns í austri og því um dágóðan hluta landsins að ræða. Við þetta bætast svo lengri ferðir félagsins og leiga bílanna í lengri verkefni til ferðaskrifstofa.

Ferðamenn á Suðurlandi
Ferðamenn á Suðurlandi Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK