Aldrei fleiri hugmyndir í Gullegginu

Verðlaunagripurinn í Gullegginu 2012.
Verðlaunagripurinn í Gullegginu 2012.

Aldrei hafa jafn margar hugmyndir verið sendar inn í frumkvöðlakeppni Innovit, Gulleggið, en alls bárust 327 viðskiptahugmyndir í keppnina í þetta skiptið. Að baki hugmyndunum eru 530 þátttakendur sem munu þurfa að vinna að þróun og framgangi sinna viðskiptatækifæra á komandi misseri. Í fyrra bárust 224 hugmyndir og því er um tæplega 50% aukningu að ræða milli ára.

Á næstu fimm vikum munu þátttakendur eiga kost á að sækja námskeið og vinnusmiðjur skipulagðar af Innovit og bakhjörlum keppninnar. Á námskeiðunum fá þátttakendur rýni og endurgjöf á hugmyndir sínar ásamt þjálfun í gerð viðskiptaáætlana og uppbyggingu viðskiptahugmynda. Sigurvegari keppninnar hlýtur verðlaunagripinn Gulleggið 2013 og 1.000.000 krónur í peningum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Innovit.

Frumkvöðlakeppni Innovit hefur farið fram síðustu ár og vaxið með hverju árinu. Alls hafa um 1000 hugmyndir verið sendar inn til þátttöku þau fimm ár sem keppnin hefur verið haldin en keppnin í ár er sú sjötta í röðinni.

Í tilkynningunni er sagt að Gulleggið sé fyrst og fremst stökkpallur fyrir framúrskarandi viðskiptahugmyndir og vettvangur þjálfunar og tengslanets fyrir háskólanemendur, nýútskrifaða og frumkvöðla. Þar fái keppendur stuðning og ráðgjöf með það að markmiði að skapa grundvöll fyrir ný fyrirtæki og verðmætasköpun á Íslandi.

Efnisorð: Gulleggið Innovit
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK