Landsbankinn opnaði í dag nýtt útibú í Borgartúni 33 í Reykjavík. Þangað flyst öll starfsemi útibúsins sem áður var til húsa á Laugavegi 77, en þar hafði bankinn haft starfsemi frá 28. maí 1960. Áður hafði afgreiðsla bankans í Holtagörðum verið sameinuð útibúinu á Laugavegi 77. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
Í útibúinu verður meðal annars ný tegund hraðbanka sem býður upp á fjölda nýrra möguleika í sjálfsafgreiðslu. Þar verður hægt að fá nánast alla þá þjónustu sem gjaldkerar veita í dag, fyrir utan kaup og sölu gjaldeyris, til dæmis verður hægt að leggja inn á og taka út af öllum reikningum. Þá verður boðið upp á þráðlaust net og aðgengi að tölvum í nýja útibúinu.
Bankanúmer útibúsins, 0111, er óbreytt og reikningsnúmer breytast ekki. Útibúið í Borgartúni er eitt stærsta útibú Landsbankans, starfsmenn þess eru 41 og útibússtjóri er Arnheiður K. Gísladóttir.