Danska ríkisstjórnin á ekki að koma bönkum sem teljast „of stórir til að falla“ til aðstoðar í framtíðinni. Í stað þess munu bankarnir þurfa að sýna fram á hærra eiginfjárhlutfall til að komast hjá skakkaföllum ef önnur bankakreppa ríður yfir. Þetta er haft eftir Benny Engelbrecht, formanni viðskiptanefndar danska þingsins hjá Bloomberg fréttaveitunni.
Engelbrecht segir í viðtalinu að það sé stórt mál hjá ríkisstjórninni að verja skattgreiðendur og hugmyndin sé að þeir þurfi ekki að leggja til fjármuni í að bjarga bönkum í framtíðinni.
Þingnefnd mun á næstunni leggja fram breytingar á núgildandi lögum og lista með tillögum um hversu mikið stærstu bankar landsins þurfi að bæta við sig í eiginfjárhlutfalli til að teljast öruggir. Í dag þurfa þarlendir bankar að hafa yfir 18% eiginfjárhlutfall, en eftir breytingarnar gætu þeir þurft allt að 21%.
Hlutabréf í Danske Bank lækkuðu töluvert í verði í gær í kjölfar fréttanna, en bankinn hefur átt í erfiðleikum frá hruninu.