Greiningardeild Arion banka spáir 0,10% lækkun á vísitölu neysluverðs í janúar, en gangi spáin eftir mun ársverðbólga mælast 3,8% samanborið við 4,2% í desember. Helstu áhrifaþættir fyrir lækkuninni eru útsöluáhrifin og minni gjaldskrárhækkanir en almennt hafa verið síðustu ár.
„Undanfarin ár hafa skattahækkanir litað verulega verðbólgutölur janúar en að þessu sinni eru engin slík áhrif og því eru minni áhrif vegna skatta- og gjaldskrárhækkana í janúar samanborið við það sem verið hefur undanfarin ár“ segir í greiningunni. Áfram er flugliður vísitölunnar talinn vera mesta óvissan, en hann sveiflast einna mest í verðmælingum Hagstofunnar. Þá hefur árstíðabundið mynstur á þessum lið riðlast mikið og segir greiningardeildin nánast ómögulegt að spá fyrir um áhrif hans.
Gangi bráðabirgðaspá greiningarinnar eftir mun árstaktur verðbólgunnar ganga hratt niður á komandi mánuðum og mælast ríflega 3% í apríl.