Getur sparað háar upphæðir fyrir fiskframleiðendur

Sæmundur Elíasson og Björn Margeirsson hafa í rannsóknum sínum skoðað …
Sæmundur Elíasson og Björn Margeirsson hafa í rannsóknum sínum skoðað aukið geymsluþol fiskafurða í flutningi.

Rétt geymsla og flutningur á ferskum fiski getur skipt sköpum varðandi geymsluþol fisksins og dregið mikið úr vörurýrnun. Þá getur lengd ending vörunnar leitt til þess að hægt verði að fara út í frekari sjóflutninga á fiski í stað þess að senda hann með flugfrakt, sem almennt er um tvö- til þrefalt dýrara. Í rannsóknaverkefnum sínum hafa þeir Björn Margeirsson og Sæmundur Elíasson skoðað hvernig hiti fisks í pakkningum breytist miðað við umhverfishita á meðan á flutningi stendur.

Þeir hafa meðal annars bent á ýmsar aðferðir sem geta aukið geymsluþol fisks í gámum auk þess sem doktorsverkefni Björns leiddi til endurhönnunar á frauðplastkössum sem getur aukið geymsluþol fisks, sem verður fyrir hitaálagi, um 2 til 3 daga. Með meira geymsluþoli verða skipaflutningar á ferskum fiski orðnir samkeppnishæfari en áður við flugfraktina.

Í dag er stærstur hluti ferskra fiskafurða, sem seldur er erlendis, fluttur með flugi. Björn segir að miklu máli skipti í því samhengi að halda hitastigi vörunnar jöfnu, en það reynist oft erfitt. Meðal annars sé líklegra að flugsendingar verði fyrir hitaálagi, svo sem þegar sendingarnar standi út í sól á flugvöllum. Í sjóflutningi er aftur á móti auðveldara að halda réttu hitastigi í hitastýrðum kæligámum. 

Nýir kassar og bætt aðstaða í gámum

Til að bregðast við þessu vandamáli hafi hann skoðað leiðir til að minnka hitasveiflur í fiskafurðum pökkuðum í frauðplastkassa, sem almennt eru notaðir utan um fiskafurðir. Hann hafi meðal annars fundið út að með því að auka einangrun á hornum kassanna, en minnka þykkt hliðanna fáist einsleitari hitadreifing í kassann. Það geti skilað sér í um 2 til 3 daga lengri líftíma miðað við kassa sem verða fyrir hitaálagi í dæmigerðum flugflutningum að sumarlagi. 

Aðferðin hefur reynst það vel að íslenska umbúðarfyrirtækið Promens ákvað að breyta hönnun á 3, 5 og 7 kílóa kössunum hjá sér í samræmi við niðurstöður Björns. Í samtali við mbl.is segir hann að verkefnið hafi auk þess verið unnið í samstarfi við Háskóla Íslands, Samherja, Brim og Eimskip þar sem mikill áhugi sé fyrir þessari nýju hönnun. Þá segir hann að kassinn hafi einnig verið kynntur fyrir aðilum á alþjóðavettvangi, m.a. á ráðstefnum á vegum International Institute of Refrigeration.

Mastersverkefni Sæmundar gekk aftur á móti út á að skoða hitadreifingu í kæligámum. Niðurstöður þess hafi meðal annars verið á þá leið að almennt sé ástæða fyrir framleiðendur til að biðja flytjendur um að stilla hitastig gáma 0,5 til 1 gráðu lægra en óskhitastig. Það er vegna þess að gámarnir ná ekki að viðhalda óskhitastigi vegna hitaálags frá umhverfinu.

Hitastig við pökkun mjög mikilvægt

Besta hitastigið fyrir ferskan hvítan fisk er samkvæmt Birni um -1°C. Þannig næst lengstur geymslutími, en hann verður um 15 dagar í stað 10 til 13 daga við 0°C. En það er ekki bara röng hitastilling kæligáma sem skiptir máli, því hitadreifing innan gámsins verður aldrei fullkomlega einsleit.

Vegna þess að varminn kemur utan frá þurfa framleiðendur að passa upp á að vörum sé ekki hlaðið í gáma þannig að brettin þrýstist upp að hliðum gámsins og hindri þar flæði kalds lofts frá kælivél. Þá er einnig nauðsynlegt fyrir framleiðendur að passa upp á að varan sé kæld niður í rétt hitastig (helst um -1°C) fyrir pökkun. Segir Björn að þetta sé hvað alvarlegasta vandamálið hér á landi, meðan kæling á heilum fiski úti á sjó sé almennt í nokkuð góðu lagi. Þá geti einnig aðrar hagræðingar á gólfi gámsins og uppröðun bretta haft nokkur áhrif á hitadreifingu meðan á flutningum stendur sem mikilvægt sé að horfa til þannig að hámarksgeymsluþol náist.

Mikill sparnaður að geta skipt um flutningsaðferð

Allt að þrefalt dýrara getur verið að senda hvert kíló af fisk út í flugfrakt í samanburði við skipaflutninga, sem eru einnig umhverfisvænni kostur. Munurinn getur numið um einni evru á hvert kíló, en samkvæmt Hagstofu Íslands voru flutt út rúmlega 13 þúsund tonn af nýjum kældum eða ísvörnum fiskflökum árið 2011. Það er sá hluti sjávarafurða sem fer að mestu leyti í flugfragt. Hér getur því verið um að ræða töluverðar upphæðir fyrir framleiðslufyrirtækin.

Með þessum úrbótum á kæligámum og hámörkun á geymsluþoli telja Björn og Sæmundur að framleiðendur geti í auknum mæli horft á sjóflutninga sem raunhæfan valkost við flugflutninga. Hins vegar nýtist nýi frauðkassinn fyrst og fremst í flugflutningi sem áfram verður mikilvægur hlekkur fyrir hágæða ferskfiskafurðir. 

Björn og Sæmundur telja að framleiðendur geti í auknum mæli …
Björn og Sæmundur telja að framleiðendur geti í auknum mæli horft á sjóflutninga sem raunhæfan valkost við flugflutninga fyrir ferskan fisk.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK