Ekkert athugavert við verðlagningu Samherja samkvæmt breskri úttekt

Samherjafrændurnir, Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson
Samherjafrændurnir, Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson mbl.is/Skapti

Ekkert athugavert var við verðlagningu í viðskiptum Samherja við Seagold Ltd. Þetta kemur fram í úttekt bresku endurskoðunarstofunnar Baker Tilly LLP. Samherji hefur sent starfsmönnum sínum bréf vegna málsins þar sem þeir greina frá niðurstöðunum. Breska félagið Seagold bað Baker Tilly um að gera óháða greiningu og úttekt á rekstri þess vegna ásakana Seðlabanka Íslands um undirverðlagningu á sölu afurða Samherja til skyldra aðila.

Í bréfinu frá Samherja segir að Baker Tilly sé með stærri fyrirtækjum heims á sínu sviði, en þar starfa um 25 þúsund manns. Segir þar að niðurstaðan sé afdráttarlaus og að ekkert væri við viðskiptin að athuga. Áður hafði Samherji birt niðurstöður IFS-Greiningar sem var á sömu leið.

Á því tímabili sem rannsókn Seðlabanka Íslands nær yfir flutti Samherji/Ice Fresh Seafood út afurðir fyrir alls 113 milljarða króna. Af eigin framleiðslu voru seldar afurðir til tengdra aðila fyrir 15,4 milljarða króna en þar af námu viðskipti við Seagold 14,3 milljörðum króna eða um 93%.

Niðurstaða úttektar Baker Tilly sem og niðurstöður IFS-Greiningar benda eindregið til þess að fullyrðingar Seðlabanka Íslands um undirverðlagningu Samherja til tengdra félaga séu úr lausu lofti gripnar segir í bréfinu.

Þá gagnrýna stjórnendur Samherja Seðlabankann fyrir tilhæfulausar árásir. „Þessi niðurstaða bresku endurskoðunarstofunnar staðfestir enn og aftur að yfirmenn Seðlabanka Íslands hafa ítrekað farið með rangfærslur í tilhæfulausri árás sinni á Samherja. Dómstólar hafa staðfest að verðútreikningar á karfa, sem lágu að baki húsrannsóknarheimildinni, voru rangir. Yfirmenn bankans hafa síðan ítrekað látið lögmann sinn fullyrða fyrir rétti að bankinn hafi ný gögn í fórum sínum sem staðfesti undirverðlagningu Samherja til tengdra félaga.“ 

Efnisorð: Samherji
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK