Undanfarnar vikur hafa forsvarsmenn Evrópusambandsins og Evrópska Seðlabankans stigið fram, hver á fætur öðrum, og lýst því yfir að það versta sé nú afstaðið í skuldakreppunni á evrusvæðinu og að framundan sé hægfara efnahagsbati. Vísa þeir meðal annars til þess að ástandið á fjármálamörkuðum hefur farið batnandi og áhættufælni fjárfesta hefur minnkað. Eitt skýrasta merkið um þetta er að fjármagnskostnaður evruríkja hefur lækkað undanfarnar vikur sem endurspeglar aukna tiltrú fjárfesta og skapar um leið aukið svigrúm evruríkja til að fjármagna sig á lægri kjörum.
Greiningardeild Íslandsbanki fjallar um málið í dag, en bendir á að þrátt fyrir orð forsvarsmannanna, þá hafi þessi bati ekki enn skilað sér í raunhagkerfið. Meðal annars mælist atvinnuleysi enn í sögulegu hámarki, eða 11,8% og þá hafi hagkerfi evrusvæðisins dregist saman um 0,6% á þriðja ársfjórðungi síðasta árs miðað við sama tímabil fyrra árs.
Í nýrri hagsspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var fyrr í þessari viku er enn gert ráð fyrir efnahagssamdrætti á þessu ári um 0,2%, og eru það verri horfur en gert var ráð fyrir í síðustu spá sjóðsins
Að mati sjóðsins er þróunin á evrusvæðinu enn einn helsti áhættuþátturinn sem steðjar að heilsu alheimshagkerfisins þrátt fyrir að sjóðurinn telji eins og flestir aðrir að svæðið sé nú komið fyrir horn hvað varðar frekari stigmögnun kreppunnar. Áhættan er hinsvegar fólgin í því að framundan gæti verið langt og strembið tímabil efnahagslegrar stöðnunar sem myndi hafa í för með sér smitáhrif út í alheimshagkerfið allt