Það er ekki aðeins staða ríkissjóðs og lánshæfismat ríkisins sem verður fyrir áhrifum af Icesave-dómnum. Líklegt er að aukin bjartsýni efli hér hagkerfið í kjölfarið. „Andlega hliðin er ekki minni en hitt. Þetta hefur jákvæð áhrif á efnahagslífið á þann hátt það leiðir til aukinnar bjartsýni sem hefur meðal annars bein áhrif í aukna einkaneyslu og fjárfestingar.“ Þetta segir Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, um niðurstöðu og afleiðingar Icesave-dómsins sem kveðinn var upp í morgun.
Nokkur hreyfing hefur verið á mörkuðum og segir Ingólfur þess helst gæta í óverðtryggðum bréfum. „Við sjáum talsverð viðbrögð við þessari niðurstöðu á innlendum fjármálamörkuðum í morgun. Ávöxtunarkrafa ríkistryggðra skuldabréfa lækkaði talsvert, sérstaklega lengri óverðtryggðir flokkar þar sem velta var talsverð.“ Þá segir hann að hlutabréfamarkaðurinn hafi einnig tekið við sér og umtalsverð velta verið í dag.
Hann tiltekur þó að krónan hafi lítið hreyfst. „Það er vitnisburður um það hversu óvirkur sá markaður er, þegar svona stórar fréttir koma inn sjást þess engin merki í gengi krónunnar,“ segir Ingólfur.
Í heild er þetta mjög jákvætt fyrir innlent efnahagslíf að mati Ingólfs. Hann segir ríkissjóð standa betur að vígi en áður, erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins vera betri, það ætti að þýða að vænlegra væri að sækja erlent fé þegar litið væri fram á við. Hann tekur þó fram að það sé ekki eitthvað sem skipti miklu máli til skamms tíma þar sem innlendir aðilar sæki ekki mikið fjármagn erlendis frá sem stendur.
Þá telur hann niðurstöðuna geta hjálpað til við losun fjármagnshaftanna þar sem skuldabagginn hlaðist ekki á aðrar skuldir. Það muni greiða aðgang að erlendu lánsfé og erlendum mörkuðum og auðveldi að leysa úr snjóhengjunni sem er hér á landi.