Hækkun vísitölu neysluverðs mældist 0,27% í janúar og mælist ársverðbólgan áfram 4,2%. Greiningardeild hafði gert ráð fyrir að verðlag myndi lækka um 0,1% í janúar og lágu spár greiningaraðila á bilinu -0,1% til +0,1%. Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka. Segir þar að frávikið megi að mestu rekja til þess að í núverandi verðmælingum megi sjá gengisáhrif smitast út í verðlagið, meðan greiningaraðilar gerðu ráð fyrir því á komandi mánuðum. Þá eru gjaldskrárhækkanir meiri en spáð hafði verið.
Á næstu mánuðum er áfram spáð töluverðum áhrifum frá gengislækkun síðustu mánaða. „Við teljum að frekari gengisáhrifa sé að vænta á komandi mánuðum. Almennt er talið að gengislekinn sé um 0,33-0,4%. Miðað við okkar mat út frá núverandi verðmælingu Hagstofunnar þá eru gengisáhrifin nú um 0,40% sem þýðir að um 1-1,5% áhrif eiga eftir að koma fram“ segir í greiningunni.
Ekki er gert ráð fyrir að verðbólgutölurnar hafi áhrif á vaxtaákvörðun Seðlabankans í næstu viku. „Líklega mun peningastefnunefnd sætta sig við að aðhald aukist a.m.k. í bili í gegnum verðbólguna einkum þar sem vísbendingar eru þess efnis að það sé að fjara undan efnahagsbatanum“ spáir greiningardeildin.
Utan gengisins voru áhrifamestu þættirnir sterk útsöluáhrif sem vógu á móti öðrum hækkunum. Flugfargjöld hækkuðu aftur á móti, en húsnæðisliðurinn lækkaði örlítið. Gerir greiningardeildin ráð fyrir að 12 mánaða verðbólga muni lækka niður í 3,7% í apríl næstkomandi.