Microsoft opnar Office skýjaþjónustu

Microsoft opnaði fyrir aðgang að nýjustu Office þjónustunni sinni í …
Microsoft opnaði fyrir aðgang að nýjustu Office þjónustunni sinni í dag. Framvegis mun viðskiptavinum bjóðast skýjaþjónustulausnir þessa vinsæla hugbúnaðar. AFP

Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft opnaði í dag fyrir skráningar að skýjaþjónustu Office hugbúnaðarins sem hefur fengið nafnið Office 365. Með því þurfa viðskiptavinir ekki að kaupa útgáfu á disk og setja upp í tölvum sínum. Mun nýja þjónustan kosta 100 Bandaríkjadollara á ári, en innifalið í því er aðgangur að ritvinnslu, töflureikni, kynningarbúnaði og fleiri algengum lausnum sem hafa verið innifalin í Office hugbúnaðinum hingað til. 

„Þetta er einskonar spegilmynd þess sem flest af okkur nota nú til dags“ sagði Oliver Roll, starfsmaður Microsoft og líkti þjónustunni við einfaldleika þess að nálgast myndefni á Netflix og tónlist á Spotify þjónustunum.

Hægt verður að nota þjónustuna á allt að fimm mismunandi tölvum og tækjum, en skjölin verða vistuð á skýjaþjónustu Microsoft, sem heitir SkyDrive og fær hver notandi allt að 27 gígabæta geymslupláss.

Þjónustan mun einnig tengjast við samskiptaforritið Skype, en notendur Office 365 fá 60 fríar mínútur í landlínu síma hvar sem er í heiminum. Microsoft keypti nýlega Skype og hefur tilkynnt að MSN þjónusta fyrirtækisins verði fljótlega lögð af, enda hafa vinsældir þess samskiptavettvangs dalað mikið síðustu árin.

Fyrirtækjaútgáfa Office 365 hefur verið í notkun síðustu 18 mánuðina og samkvæmt Roll hafa bæði stór og smá fyrirtæki tekið upp þessa lausn og nýta nú við daglega vinnu. Þann 27. febrúar verður sú útgáfa uppfærð þannig að hún stilli sig saman við nýja Windows 8 stýrikerfið.

Hefðbundin útgáfa af nýjasta Office pakkanum kom einnig út í dag, en Roll segir að fljótlega muni flestir notendur vilja notast við skýjaþjónustuna. 

Ljóst er að Microsoft er með þessu skrefi sínu að fara í aukna samkeppni við Google, sem hefur náð mikilli útbreiðslu með Google Drive þjónustunni sinni þar sem fólk hefur aðgang að ókeypis hugbúnaðarpakka, ekki ósvipuðum þeim sem Office býður upp á. Roll segir Microsoft þó vera miklu framar en Google á þessu sviði. „Office 365 er með höfuð og herðar yfir alla aðra á þessum markaði. Það er ástæða þess að viðskiptavinirnir kjósa okkur. Með forritum frá Google eru þeir að gera tilslakanir, en fólk vill ekki slíkt.“

Nýi Office hugbúnaðurinn mun tengjast betur við Windows 8 kerfið
Nýi Office hugbúnaðurinn mun tengjast betur við Windows 8 kerfið AFP
Efnisorð: Microsoft Office
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK