Frumkvöðlaverkefni af landsbyggðinni skila sér síður inn

Sigurður Björnsson, sviðstjóri hjá Rannís.
Sigurður Björnsson, sviðstjóri hjá Rannís. Mynd/Arnaldur Halldórsson

Um helgina hélt Tækniþróunarsjóður ráðstefnu í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar var starfsemi sjóðsins kynnt, mörg fyrirtækjanna sem hafa fengið styrki héldu stuttar kynningar og pallborðsumræður fóru fram. Sigurður Björnsson, sviðsstjóri hjá Rannís, ræddi við mbl.is um sjóðinn, þann aukna kraft sem hefur verið settur í nýsköpunarverkefni og bilið milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar.

Stækkar um 70% milli ára

„Þetta er uppskeruhátíð þar sem við förum yfir úthlutanir síðastliðins árs og lítum til baka yfir síðustu þrjú ár þegar ný stjórn var skipuð“ segir Sigurður, en hann telur þá stjórn hafa lyft sjóðnum mikið upp. „Sjóðurinn er að stækka um 70% á þessu ári, en í ár var honum úthlutað 1265 milljónum, samanborið við 725 milljónir í fyrra. Það má segja að barátta þeirrar stjórnar sem nú er að stíga til hliðar sé að verða að veruleika.“

Þetta er að sögn Sigurðar eini ríkisstyrkti sjóðurinn sem ekki var skorinn niður eftir hrun og nú sé verið að gefa þar í. „Það sýnir ákveðna stefnumótun stjórnvalda og velvilja í garð nýsköpunar sem ég held að við getum verið sammála um að þurfi til að koma okkur á landakortið aftur.“

Samkvæmt nýjum lögum sjóðsins er skipunartími stjórnarmanna nú tvö ár í stað þriggja. Hilmar Veigar, stjórnarformaður sjóðsins og forstjóri CCP, verður þó áfram stjórnarmaður næstu tvö árin.

Færri en betri umsóknir 

Aðspurður um fjölda verkefna í dag miðað við fyrri ár segir Sigurður að ástandið sé svipað og áður, en telur að gæði umsókna sé að aukast. „Það kom mikill fjöldi inn 2009, eðli málsins samkvæmt, síðan hefur þeim svolítið fækkað. Úthlutunarhlutfallið var dálítið lágt, en hefur hækkað aftur. Það má segja að það eru aðeins færri umsóknir, en betri núna.“ 

Síðustu 9 árin hefur sjóðurinn veitt um 5 milljarða í styrki. Þar af eru um 2,8 milljarðar vegna nýrra verkefna og rúmlega 2 milljarðar vegna framhaldsstyrkja. Hæsta upphæðin var greidd árið 2009, en þá voru veittir styrkir að upphæð 825 milljónir, þar af 530 milljónir í ný verkefni. Í fyrra var upphæðin svo 682 milljónir, þar af 431 milljónir til nýrra verkefna.

Hann segir að það sem þurfi helst að setja meiri kraft í séu frumkvöðlastyrkirnir. Þar þurfi einstaklingar eða fyrirtæki sem séu alveg að byrja að koma inn með betri umsóknir. „Menn geta verið með góðar hugmyndir, en ef þeir koma þeim ekki frá sér þá getur það verið vandamál“ segir Sigurður. 

Verkefni af landsbyggðinni skila sér ekki inn

Sigurður segir að skipting milli atvinnuflokka sé nokkuð góð. Mikið sé um verkefni sem tengist hugbúnaðargerð, en einnig séu stór verkefni í matvælaiðnaði og líftækni. Auk þess hafi á síðustu þremur árum komið inn verkefni í ferðaþjónustu og hönnun sem hafi varla þekkst fyrir þann tíma. Það þurfi aftur á móti að huga betur að landsbyggðinni, en hann segir að frumkvöðlastarfið þar sé ekki að skila sér inn til sjóðsins.

Þegar litið er yfir þann fjölda fyrirtækja sem hafa fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði kemur í ljós að nokkur fyrirtæki sem talin eru rótgróin hafa fengið styrki. Þar á meðal eru Marel, Hampiðjan og Bláa lónið. Sigurður segir að þarna sé verið að styrkja verkefni þar sem fyrirtækin vinna algjörlega ný verkefni, jafnvel aðeins utan síns hefðbundna verksviðs. Öllum fyrirtækjum sé opið að sækja um til slíkra verkefna segir hann, enda falli þau að markmiðum sjóðsins. „Við erum ekki að styrkja fyrirtæki í heild, heldur einstök verkefni sem menn hafa skilgreint og sótt um.“

Meðal þeirra fyrirtækja sem hafa fengið hæstu styrk upphæðirnar frá upphafi eru Marorka, Nox Medical og ORF líftækni. Nema styrkir á hvert þessara fyrirtækja yfir 100 milljónum á 9 ára tímabili. Sigurður segir að þetta séu fyrirtæki sem nú séu orðin nokkuð stöndug og verið sé að útskrifa eftir að hafa farið í gegnum mesta nýnæmisstigið.

Fjöldi gesta mætti á ráðstefnuna í Ráðhúsinu.
Fjöldi gesta mætti á ráðstefnuna í Ráðhúsinu. Mynd/Arnaldur Halldórsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK