Kauphöllin afgreiddi í fyrra 69 mál vegna gruns um brot á reglum um upplýsingagjöf félaga eða sem lutu að viðskiptum með verðbréf. Af málunum 69 voru 21 mál vísað áfram til Fjármálaeftirlitsins til frekari skoðun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni, en árlega er tekinn saman yfirlit eftirlitsmála.
Af málunum 69 afgreiddi Kauphöllin 43 mál vegna gruns um brot á reglum um upplýsingagjöf félaga á markaði (upplýsingarskyldueftirlit), en 26 mál sem lutu að viðskiptum með verðbréf (viðskiptaeftirlit).
Mál vegna gruns um brot á reglum um upplýsingagjöf félaga á markaði voru afgreidd með mismunandi hætti. Sjö þeirra enduðu með athugasemd meðan eitt fékk óopinbera áminningu Þá voru níu mál áframsend til Fjármálaeftirlitsins. Tilmælum var beint til útgefanda í sex málum en tuttugu mál voru felld niður.
Af þeim málum sem lutu að viðskiptum með verðbréf voru átta mál afgreidd með athugasemd. Tólf mál voru áframsend til Fjármálaeftirlitsins til frekari skoðunar. Sex mál voru felld niður.