Áhugi olíu- og gasiðnaðarins hefur farið dvínandi á heimskautasvæðinu, en helstu ástæður þess eru breytt mynd á alheimsmarkaði með gas og einokun ríkisolíufyrirtækjanna í Rússlandi. Undantekningin frá þessu er þó Noregshluti Barentshafsins þar sem talsverðar líkur eru á olíufundi. Þetta kemur fram í frétt norska blaðsins Teknisk Ukeblad þar sem haft er eftir sérfræðingum sem komu að ráðstefnu í Tromsö í síðustu viku varðandi vinnslu á heimskautasvæðinu.
Ingrid Opdahl, sérfræðingur hjá rannsóknarstofnun um varnarmál í Noregi, segir að rússnesku fyrirtækin séu hluti af valdatafli þar sem reynt sé að ýta undir pólitísk völd með efnahagslegum völdu. Fyrirtækin hafi meðal annars ekki aðgang að nýjustu tækni sem aðrir erlendir fjárfestar gætu útvegað, segir Opdahl.
Þá var einnig bent á að markaður fyrir gas hefði breyst mjög mikið á síðustu 3 til 4 árum, en verð hefur lækkað mikið á alþjóðamarkaði. Er það sérstaklega vegna þeirra sviptinga sem hafa orðið í Bandaríkjunum, þar sem hægt hefur verið að ná í mikið magn af jarðgasi sem bundið er í setlögum. Þannig hafi Bandaríkin farið úr því að vera stór innflytjandi yfir í að vera stór útflytjandi af gasi.
Þessar staðreyndir gera það að verkum að kolefnaleitarfyrirtæki hafa snúið sér frá heimskautasvæðinu, þar sem aðstæður eru mjög erfiðar. Noregshluti Barentshafsins er þó talin vera undantekningin í þessu samhengi þar sem talið er nokkuð víst að þar muni finnast kolefni, auk þess sem skilyrðin á þessu svæði séu svipuð og megi finnar sunnar meðfram ströndum Noregs. Þá sé aðbúnaður til staðar á svæðinu og það sé nokkuð ódýrara að stækka við núverandi aðstöðu, heldur en að byggja hana upp frá grunni.