Ísland er í harðri samkeppni við önnur ríki og áskoranirnar eru þær sömu alls staðar, að auka samkeppnishæfnina og auka framleiðni og skilvirkni í öllum geirum atvinnulífsins, ekki aðeins í greinum í alþjóðlegri samkeppni heldur einnig í heimamarkaðsgreinum og hjá hinu opinbera, að sögn Hannesar G. Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins en samtökin stóðu í dag fyrir fundi um atvinnumálin.
Árið 2003 var full atvinna í landinu. Á næstu fimm árum fjölgaði störfum um 20.000, eða um 4.000 á ári að jafnaði, vegna mikilla framkvæmda og ofþenslu í efnahagslífinu. Innlendur vinnumarkaður gat ekki annað þeirri eftirspurn og því hófst mikill innflutningur á vinnuafli. Það lætur nærri að störfin sem urðu til á milli áranna 2003 og 2008 hafi skipst jafnt á milli íslenskra og aðfluttra starfsmanna, að sögn Hannesar.
„Í kjölfar efnahagskreppunnar haustið 2008 dróst framleiðsla og verðmætasköpun mikið saman í landinu. Störfum fækkaði um 11.000 og atvinnuleysi varð meira en nokkru sinni fyrr. Nettó brottflutningur Íslendinga af landinu var mikill, eða 6.400 manns á fjórum árum. Menntunarstig og sérhæfing íbúa landsins hefur minnkað af þeim sökum og dregið hefur úr framboði þess vinnuafls sem atvinnulífið þarfnast.
Fljótlega eftir að samstarf AGS og íslenskra stjórnvalda hófst haustið 2008 spáði sjóðurinn að samdráttur áranna 2009 og 2010 yrði 10% sem reyndist furðu nærri lagi. Hins vegar var þá gert ráð fyrir að Ísland rétti fljótlega úr kútnum og hagvöxtur yrði 4-5% árin 2011-2013. Full atvinna og verðstöðugleiki myndi ríkja árið 2013. Raunin varð önnur og þörf okkar fyrir meiri hagvöxt, fleiri störf og verðstöðugleika er jafn mikil og áður,“ sagði Hannes í erindi sínu á fundi SA í dag.
Meiri samdráttur hér en á evrusvæðinu
Þrátt fyrir að Ísland hafi um skeið búið við nokkurn hagvöxt sem hefur verið meiri en í mörgum ríkjum þá fer því fjarri að Ísland hafi náð að endurheimta fyrri stöðu. Í samanburði við Norðurlöndin er Ísland lengst frá því að ná þeirri stöðu sem var í byrjun ársins 2008. Sama gildir um samanburð við evru-svæðið, samdrátturinn á Íslandi frá ársbyrjun 2008 til loka síðasta árs er meiri en þar, að sögn Hannesar.
Að sögn Hannesar er hagvöxturinn ekki ekki eins vinnuaflskrefjandi og áður var.
„Þessi þróun skýrist af aukinni skilvirkni vegna hraðari tækniþróunar í atvinnulífinu og fjárfestinga í vinnusparandi ferlum og framleiðslutækjum. Framleiðni vinnuaflsins eykst stöðugt þannig að sífellt færri starfsmenn standa að baki tiltekinni framleiðslu og þjónustu. Dæmi eru um nálæg lönd, svo sem Svíþjóð, þar sem störfum hefur ekkert fjölgað í áratugi,“ að sögn Hannesar.
Fjárfestingar í sögulegu lágmarki
„Störfum fjölgar ekki nema umsvif í atvinnulífinu aukist. Atvinnulífið vex ekki nema fjárfest sé í aukinni framleiðslu- og þjónustu. Undanfarin þrjú ár hafa fjárfestingar verið í sögulegu lágmarki. Fjárfestingar í heild hafa einungis numið 13-14% af landsframleiðslu síðastliðin þrjú ár en þær námu að meðaltali yfir 20% síðustu áratugina. Lágt fjárfestingarstig undanfarinna ára fjölgar því ekki störfum nægilega.
Atvinnulífið vex ekki nema með fjárfestingum í nýsköpun, þróun nýrra afurða og hugvitssamra lausna, og með fjölgun öflugra fyrirtækja. Örva má fjárfestingar með hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrir fyrirtæki og fjárfesta. Meðal mikilvægustu þáttanna er hagstætt skattalegt umhverfi, efnahagslegur stöðugleiki, lág verðbólga og lágir vextir. Fæstir þessara þátta hafa einkennt fjárfestingarumhverfið hér á landi undanfarin ár. Þá skiptir pólitískur stöðugleiki miklu máli því fjárfestar þurfa að búa við öryggi þar sem þeir líta jafnan til langs tíma. Gott samstarf stjórnvalda og atvinnulífs gegnir einnig mikilvægu hlutverki í hagstæðu umhverfi fyrir atvinnuvegafjárfestingar,“ segir aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Hannes segir að haldi sú þróun áfram, að störfum fjölgi um 0,3% með hverri prósentu hagvaxtar, eins og verið hefur undanfarinn áratug, svari það til 500 starfa. Þá þarf 3% hagvöxt til að mæta árlegri fjölgun á vinnumarkaði á næstu árum. Þörf er fyrir enn meiri hagvöxt til þess að minnka atvinnuleysi.
„Verði hagvöxtur að jafnaði 2,5% á ári næstu árin, eins og flestar spár gera ráð fyrir, mun full atvinna ekki nást í fyrirsjáanlegri framtíð, nema brottflutningur íbúa haldi áfram. Verði hagvöxtur að jafnaði 3,5% á ári má gera ráð fyrir að full atvinna komist á eftir tæpan áratug. Af þessu má ráða að þörf er á enn meiri hagvexti en 3,5% næstu árin til að mæta stækkandi vinnumarkaði, vinna bug á núverandi atvinnuleysi og ekki síst að bjóða þeim þúsundum Íslendinga störf sem fluttu af landi brott í kjölfar efnahagskreppunnar af efnahagslegum ástæðum.
Ísland þarf að vaxa meira en samkvæmt fyrirliggjandi hagspám til að ná fullri atvinnu og bæta lífskjör. Mikill hagvöxtur verður ekki að veruleika nema forsendum verði breytt. Þær forsendur eru efnahagslegur og pólitískur stöðugleiki, hagstæð starfsskilyrði atvinnulífs, miklar erlendar fjárfestingar og gott samstarf stjórnvalda og atvinnulífs um stefnumörkun og sameiginlega framtíðarsýn,“ segir Hannes en í dag gáfu Samtök atvinnulífsins út nýtt tímarit, Fleiri störf - Betri störf.