Fjármálaráðherra Bretlands, George Osborne, hefur hótað að brjóta upp stóru bankana ef þeir hunsa nýjar reglur sem eru ætlaðar til að lágmarka skaða skattgreiðenda af fjármálaáföllum.
Nýja reglugerðin á að byggja upp girðingu milli venjulegrar bankastarfsemi og áhættusamari starfsemi fjárfestingaarms bankanna. Þá munu eftirlitsaðilar og fjármálaráðuneytið fá valdaheimildir til að grípa beint inn í og brjóta bankana upp í smærri einingar ef þeir fara ekki eftir nýju reglunum. Þetta kemur fram í frétt á netmiðli The Guardian.
„Skilaboð mín til bankanna eru skýr, ef banki hunsar reglurnar þá hafa eftirlitsaðilar og fjármálaráðuneytið völd til að brjóta bankann upp í einingar, fullkomin skipting, ekki bara girðing innan fyrirtækisins“ er haft eftir Osborne.