Vinirnir Benedikt Skúlason og Guðberg Björnsson ákváðu fyrir nokkrum árum að láta drauminn rætast og sameina áhugamál og þekkingu. Markmiðið var að endurhanna hjóladempara og gera léttustu hágæða hjólagaffla í heimi
Hjólreiðakapparnir og vinirnir Benedikt Skúlason og Guðberg Björnsson eru svo lánsamir að vinna við helsta áhugamál sitt í eigin fyrirtæki, en fyrir um einu og hálfu ári síðan ákváðu þeir að „flýja úr skjóli stimpilklukkunnar og fara í vitleysuna“ eins og Benedikt orðar það. Í fyrirtæki sínu Lauf Forks ehf. hafa þeir hannað, smíðað og einkaleyfaverndað nýja gerð demparagaffals fyrir reiðhjól.
Farnir af lögfræðistofunni
Gaffall Lauf Forks byggir á algjörlega nýrri nálgun við viðfangsefnið og nýtir stuttar samsíða glertrefjafjaðrir til að ná fram fjöðrun, í stað hefðbundinna teleskópískra dempara. Með þessu móti hefur þeim félögunum tekist að smíða dempargaffal sem svarar höggum vel, þarfnast ekki viðhalds og vegur aðeins um 900 grömm, en almennir demparagafflar í hágæðaflokki eru í dag á bilinu 1,2 til 1,5 kíló. Verð á þeim er á bilinu 100 til 200 þúsund krónur og að sögn félaganna er mjög mikil eftirspurn eftir þeim á alþjóðamarkaði og því eftir ansi miklu að slægjast.
Frá því að Benedikt fékk hugmyndina að gafflinum og fékk Guðberg til liðs við sig í verkefnið fyrir rúmum tveimur árum síðan hafa hlutirnir gerst hratt. Fyrst um sinn höfðust þeir við í 15 fermetra aðstöðu í risherbergi á 5. hæð á lögfræðistofu, en hafa nú stækkað við sig og eru að undirbúa framleiðslu á demparagafflinum fyrir heimsmarkað.
Þeir segjast alltaf hafa verið miklir hjólanördar og þegar við bætist áhugi á hönnun og verkfræði hafi í raun strax verið augljóst að þessari góðu hugmynd þyrftu þeir að fylgja almennilega eftir.
Benedikt lærði vélaverkfræði hér á landi áður en hann tók meistaragráðu í iðnaðarverkfræði í Bandaríkjunum. Guðberg tók aftur á móti meistargráðu í iðnhönnun í Danmörku. Benedikt segist lengi hafa haft mikinn áhuga á koltrefjum, en gaffall Lauf Forks er einmitt smíðaður úr koltrefjum, og fyrir utan að hafa starfað sem vöruþróunarverkfræðingur í koltrefjadeild hjá Össur hf. hafi hann varið frítíma sínum í að viða að sér allri mögulegri þekkingu um efnið. „Ég var á þeim tíma að spá í að smíða mitt eigið hjól úr koltrefjum“ segir hann.
Fór að rúlla eftir að hafa fengið styrk hjá Tækniþróunarsjóði
Verkefnið fór að rúlla fyrir alvöru eftir að þeir fengu 5 milljónir í frumherjastyrk hjá Tækniþróunarsjóði, en strax árið eftir voru þeir uppfærðir í verkefnastyrk, sem nemur 10 milljónum á ári í 3 ár. „Það gerði þetta í raun og veru allt mögulegt“ segir Benedikt, en þeir segja að verkefnið sé nokkuð öðruvísi en mörg nýsköpunarverkefni sem eru í gangi í dag og ganga út á forritun að því leyti að þeir hafi þurft að fjárfesta í ýmsum tækjum og tólum.
Guðberg nefnir sem dæmi að þeir hafi þurft að láta smíða fyrir sig mót fyrir um 2 milljónir, sem sé dýrara en bílar þeirra beggja til samans. „Það eru allskonar póstar sem maður nær ekki að yfirstíga með eigin vinnuframlagi“ segir hann og telur nauðsynlegt að til séu sjóðir sem geti styrkt frumkvöðlastarf eins og þeirra.
Næsta skref í verkefninu er að taka inn fjárfesta og segjast þeir vera að vinna í því þessa dagana. Nýlega fengu þeir 1,5 milljóna nýsköpunarstyrk frá Landsbankanum og eina milljón frá Impru, en þeir segja að nú þurfi töluvert fjármagn í viðbót svo hægt sé að koma framleiðslu af stað og hefja sölu á gafflinum.
Kynntu demparana fyrir kínverskum hjólreiðamönnum
Benedikt og Guðberg eru nýkomnir heim eftir tveggja vikna ferðalag í Kína þar sem þeir voru að kynna vöruna fyrir framleiðendum þar ytra. Benedikt segir að viðtökurnar hafi verið framar vonum. Þeir hafi meðal annars ekki ætlað sér að fá fundi hjá stærstu aðilunum á markaðinum og talið þá of stóran bita til að byrja með. Það hafi þó breyst fljótlega.
Eftir nokkra fundi hafi þeir fundið fyrir gífurlegum áhuga og hafi því ákveðið að athuga með þessa stóru aðila. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og fengu þeir m.a. fund með einum stærsta koltrefjahjólaframleiðanda heims. Áhugi framleiðandans var slíkur að forsvarsmenn hans voru tilbúnir til að aðlaga sig að þéttbókaðri dagskrá Benedikts og Guðbergs og funda með þeim á laugardegi. Benedikt segir að öll fyrirtækin sem fundað var með hafi hreinlega verið „æst í að framleiða þetta fyrir okkur og menn hafi að fyrra bragði haft orð á því að þetta væri vara sem gæti sópað að sér ýmsum hönnunarverðlaunum í hjólabransanum“.
Meðan þeir voru í Kína heimsóttu þeir 9 verksmiðjur. Stærstu verksmiðjurnar eru að sögn Guðbergs með yfir 2000 starfsmenn og framleiða yfir 300 þúsund hágæða hjól á ári. Þessar verksmiðjur eru að framleiða hjól og hjólaíhluti fyrir mörg af fremstu hjólamerkjum heims. Þar má t.d. nefna Trek, Specialized, Cube og Cannondale. Það væri því mikil viðurkenning fyrir Lauf Forks að komast inn hjá slíkum framleiðendum.
„Þetta er fyrsta varan í langan tíma í hjólabransanum sem siglir í bláum sjó (e. blue ocean product)“ segir Guðberg, en þar á hann við vöru sem kemur alveg ný inn á markað og á enga beina samkeppnisaðila. Þar af leiðandi séu þeir í þeirri lúxusstöðu að hafa tiltölulega frjálsar hendur hvað verðlagningu gaffalsins varðar.
Til að varpa ljósi á hve stór markaðurinn fyrir demparagaffla er nefnir Benedikt að einn af dýrari hjólagöfflum sem fæst í dag, Rockshox SID WC, kosti um 1200 Bandaríkjadollara og seljist í um 50 þúsund eintökum á ári. Svo seljist miklu meira af göfflum í næsta verðflokki fyrir neðan.
„Það er fullt af fólki í þessum dýru göfflum og það er mjög mikill vaxandi í þessum hágæða hjólabransa“ segir Benedikt og bætir við að hjólreiðaáhuginn fari til dæmis mikið vaxandi hjá miðaldra karlmönnum sem séu í góðum störfum. „Það er mikið af miðaldra skrifstofuköllum að detta í þennan pakka. Þegar menn eru búnir að borga húsið og kaupa sumarbústaðinn, af hverju ekki að eyða 2 milljónum í hjól?“
Þegar náðst hefur að finna fjárfesta segjast þeir geta farið nokkuð fljótt út í framleiðslu. Það þurfi aðeins að vinna að framleiðsluferlinu með verksmiðjunum, en það taki skjótan tíma og því ættu áhugasamir ekki að þurfa bíða lengi þar til hægt verði að kaupa Lauf Forks gaffal úti í næstu hjólreiðaverslun.
.