Áfram hægir á fjárfestingum

Bjarni Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að skortur á fjárfestingum …
Bjarni Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að skortur á fjárfestingum sé stórt vandamál. Árni Sæberg

Síðustu ár hefur fjárfesting á Íslandi verið mjög lág þegar horft er til sögulegs samhengis. Bent hefur verið á að lágt fjárfestingarstig skili sér í færri nýjum störfum og komi í veg fyrir að full atvinna náist hér á landi á komandi árum. Í Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem kom út í morgun, er að finna endurskoðun á tölum um fjárfestingu á síðasta ári. Þar kemur meðal annars fram að gert sé ráð fyrir að fjárfestingar hafi aðeins aukist um 5% í stað 9,2% sem spáð hafði verið fyrir um í nóvember.

Bjarni Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir í samtali við mbl.is að þessi skortur á fjárfestingum sé stórt vandamál og að þegar miðað sé við fjárfestingu sem hlutfall af landsframleiðslu megi sjá að lítið hafi áunnist á síðustu árum. Segir hann að verri horfur nú kalli á lækkun vaxta sem geti þar með aukið við fjárfestingu.

„Í mínum huga er yfirlýsing peningastefnunefndar í raun og veru röksemd fyrir því að menn slaki frekar á aðhaldi peningastefnunnar. Ef hagvöxtur er minni en búist var við, verðlagshorfur svipaðar, vinnumarkaðurinn ekki að taka við sér með þeim hætti sem vonast var eftir, fjárfesting minni og hagvaxtarhorfur á þessu ári lægri, kallar það ekki á lægri vexti?“ segir Bjarni.

Í Peningamálum er gert ráð fyrir að almenn atvinnuvegafjárfesting muni vaxa hægar í ár, eða um 20% í stað 27% vaxtar. Minni vöxtur fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og töluvert minni fjárfesting í skipum og flugvélum gerir það hins vegar að verkum að atvinnuvegafjárfesting er talin dragast saman um rúmlega 11% í ár í stað þess að aukast um 2% eins og gert var ráð fyrir í nóvemberspánni.

Hann bendir á að ekki sé rétt að horfa á prósentubreytingar í fjárfestingum, heldur þurfi að horfa á fjárfestingu sem hlutfall af landsframleiðslu. „Fjárfesting dróst saman um 50% og svo 30% á árunum 2009 til 2010. Við erum því að tala um mjög lágt fjárfestingarstig enn í dag.“ Þrátt fyrir hækkun um nokkrar prósentur í fjárfestingu segir hann að það skili litlu, því grunnurinn sé svo lítill.

Bjarni segir þó ekki hægt að skella allri skuldinni á aðstæður hérlendis, því efnahagsástandið í umheiminum sé einnig fremur slæmt. Meðal annars sé hægur vöxtur allsstaðar sem hafi áhrif á vilja aðila til að fjárfesta bæði hér og erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK