Í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans er dregin upp nokkuð verri mynd af stöðu mála hér á landi en Seðlabankinn hefur áður gert. Hagvaxtarspá bankans fyrir árið 2013 er lækkuð úr 3% niður í 2,1% frá því í spá bankans frá í nóvember. Einnig er endurskoðuð spá fyrir árið 2012 lækkuð úr 2,5% niður í 2,2%.
Helstu ástæður þessara versnandi horfa eru sagðar vera hægur vöxtur í einkaneyslu og minni fjárfestingar í orkufrekum iðnaði heldur en gert var ráð fyrir. Þá er gert ráð fyrir að sú fjárfesting færist yfir á árin 2014 til 2015 og er hagvaxtarspá þeirra ára hækkuð úr 3,5% í 3,75%.
Einnig gengur hægar á atvinnuleysið en vænst hafði verið. „Þótt hjöðnun atvinnuleysis hafi í meginatriðum verið í takt við fyrri spá Seðlabankans hefur fjölgun heildarvinnustunda verið nokkru hægari en gert hafði verið ráð fyrir. Hægari efnahagsumsvif leiða til þess að heildarvinnustundum fjölgar minna og atvinnuleysi hjaðnar hægar en spáð var í nóvember,“ segir í spá bankans.
Bankinn segir veikingu krónunnar að nokkru leyti mega rekja til lægri útflutningstekna, sem orsakast af efnahagsástandi á helstu útflutningsmörkuðum Íslands. Líkur á stórfelldum áföllum eins og upplausn evrusvæðisins eða snarpri aukningu
aðhalds í ríkisfjármálum í Bandaríkjunum hafi minnkað töluvert, en þó segir bankinn óvissu enn vera mikla í alþjóðlegum efnahagsmálum.