Hagnaður stoðtækjaframleiðandans Össurar nam um 4,8 milljörðum (38 milljónir Bandaríkjadollara) á síðasta ári, en það er aukning um 9% frá árinu á undan. Sala jókst um 3% og var tæplega 400 milljónir dollara. Metsala var á bionic vörulínunni á fjórða ársfjórðungi eða sem nam 17% af heildarsölu á stoðtækjum.
Í ársuppgjöri félagsins kemur fram að framlegð hafi verið stöðug. Ný framleiðslueining í Mexíkó hafi haft jákvæð áhrif auk annarra skilvirkniverkefna. Slök sala í Bandaríkjunum hafi aftur á móti haft neikvæð áhrif.
Framlegðin nam 248 milljónum Bandaríkjadala eða 62% af sölu, sem er sama hlutfall og árið 2011. Hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA) nam 70 milljónum Bandaríkjadala eða 18% af sölu og var í takt við áætlun um 18-19%.
Haft er eftir Jóni Sigurðssyni, forstjóra félagsins, að þrátt fyrir erfiðleika í Bandaríkjunum sé mikill áhugi á vörum félagsins. „Enn eitt árið gengur mjög vel í EMEA [Evrópa, Mið-Austurlönd og Afríka] á meðan markaðsaðstæður í Bandaríkjunum hafa verið erfiðar. Sala á stoðtækjum í EMEA hefur verið mjög góð allt árið og metsala á Bionic-vörum á fjórða ársfjórðungi. Þrátt fyrir miklar sviptingar í endurgreiðslukerfinu í Bandaríkjunum finnum við fyrir áhuga á okkar hátæknivörum.“