Opna hótel við hlið Dómkirkjunnar

Teitur Jónasson á svölum hótelsins, en það er í næsta …
Teitur Jónasson á svölum hótelsins, en það er í næsta nágrenni Dómkirkjunnar og Alþingis.

Í vor verður opnað nýtt hótel í miðbænum í Kirkjuhvolshúsinu, þar sem Pelsinn var áður til húsa. Heildarfjöldi herbergja verður 17, en meðalstærð þeirra verður tæplega 40 fermetrar. Teitur Jónasson, framkvæmdastjóri og rekstraraðili nýja hótelsins, segir að horft verði til þess að skapa lággjaldaumgjörð, en meira verði lagt upp úr þægindum innandyra fyrir gesti.

„Þetta er ekki beinlínis hótel né íbúðarhótel eða gistiheimili. Við fáum hótelleyfi, en herbergin eru töluvert stór þannig að þetta er meira svítuhugmynd,“ segir Teitur. Þannig verður stærsta íbúðin um 80 fermetrar, en það er þakíbúð með tvennum 55 fermetra svölum og útsýni yfir Dómkirkjuna, Tjörnina og Þingholtin. 

„Hugmyndin snýst um að vera með lággjaldaumgjörð, en mikil þægindi að innan. Hótelið verður meðal annars lyklalaust og gestir hafa aðgangskóða,“ segir Teitur, en morgunverður er svo borinn fram hjá Bergsson mathúsi, sem Þórir Bergsson rekur í Templarasundi 3.

Teitur segir að þessi stærð muni henta sérstaklega vel fyrir þá viðskiptavini sem mögulega hefðu þurft tvö herbergi á hóteli, til dæmis fjölskyldufólk með börn. 

Eigandi fasteignarinnar er Þórsgarður fasteignafélag, sem er í eigu Michaels Jenkins, Valdísar Fjölnisdóttur og Eyglóar Agnarsdóttur. Rekstrarfélagið, sem heitir Meira leiguhúsnæði, er svo í eigu Teits og Þórsgarðs.

Í fyrra var fjallað um málefni Jenkins í Viðskiptablaðinu. Þá voru taldar upp eignir Þórsgarðs sem voru meðal annars Kirkjuhvoll, Templarasund 3 og Kaaberhúsið þar sem Fréttatíminn, Fíton auglýsingastofa og Þórsgarður eru til húsa. Auk þess átti hann íbúðarblokkir í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK