Olíuverð hefur hækkað um 4 krónur frá því fyrir helgi, en vegna hækkana á heimsmarkaði reið Olís á vaðið á föstudaginn og hækkaði bensínlítrann úr 260,5 krónum upp í 264,5 krónur. Aðrir söluaðilar fylgdu svo í kjölfarið og hafa allir hækkað verðið hjá sér í dag.
Á síðustu tveimur mánuðum hefur verð á bensíni hækkað um rúmlega 6%, en um áramótin kom til smá lækkunar á heimsmarkaðsverði. Sú lækkun hefur aftur á móti öll gengið til baka í dag og gott betur en það. Í samtali við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra FÍB, segir hann að „ef menn eru samkvæmir sjálfum sér ættu þeir að lækka verðið aftur“, en lækkanir áttu sér stað á alþjóðlegum mörkuðum í dag.
„Olíufélögin hafa hækkað verð samkvæmt breytingum á erlendum mörkuðum síðustu mánuði“ segir Runólfur, en í þetta skiptið hafi það verið í hærra lagi, eða um 1 til 2 krónur umfram verðbreytingar. „Menn voru full frekir til hækkana fyrir og eftir helgi. Ég er frekar hallur undir að þetta gangi til baka og við sjáum einhverjar lækkanir“ segir hann jafnframt.