Tæplega 61% landsmanna eru jákvæðir gagnvart íslenskum áliðnaði samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup vann fyrir Samtök álframleiðenda á Íslandi. Þetta er nokkur aukning frá síðustu könnun, er tæp 56% aðspurðra sögðust jákvæð gagnvart áliðnaði á Íslandi. Liðlega 21% landsmanna eru hlutlausir í afstöðu sinni og um 18% aðspurðra segjast neikvæðir gagnvart iðnaðinum.
Íbúar austurlands eru jákvæðastir gagnvart áliðnaði hér á landi en 74% aðspurðra þar sögðust jákvæð gagnvart greininni samanborið við 60% íbúa höfuðborgarsvæðisins. Á suðurnesjum sögðust 71% aðspurðra jákvæð gagnvart áliðnaði. Þá eru karlar heldur jákvæðari en konur og að sama skapi er áberandi munur á afstöðu eftir stjórnmálaflokkum.
Um 88% þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn segjast jákvæð gagnvart áliðnaði, og 85% stuðningsmanna Framsóknarflokks eru sama sinnis. Nærri 50% kjósenda Samfylkingar segjast jákvæðir gagnvart áliðnaði en um 25% segjast aftur á móti vera neikvæðir. Kjósendur Vinstri grænna eru neikvæðastir gagnvart iðnaðnum, en 21% aðspurðra úr hópi stuðningsmanna flokksins segjast vera jákvæðir en 55% neikvæðir.
Úrtakið var 1.450 manns á landinu öllu, valið handahófskennt úr viðhorfahópi Capacent Gallup. Svarhlutfall var 60,1%.