Í viðtali Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, við Reuters-fréttaveituna felast fersk skilaboð um að verðbólgumarkmiðin hafi að hluta til vikið fyrir gengismarkmiðum. Þá er heilbrigði hagkerfisins í heild farið að spila stærri rullu í ákvarðanatökunni en áður. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka, en þar segir að Már sé í viðtalinu afdráttarlausari í tali um næstu skref í peningamálum en Seðlabankinn hafi verið í kringum síðustu vaxtaákvörðun og útgáfu Peningamála.
Greiningardeildir segir frá því að skuldabréf hafi verið keypt í dag í framhaldi af fréttinni, enda bendi ummæli seðlabankastjóra ótvírætt til að ólíklegt sé að við sjáum frekari stýrivaxtahækkanir á næstu mánuðum. Í frétt Reuters kemur fram að Seðlabankinn muni hins vegar halda áfram inngripum á gjaldeyrismarkaði til þess að tryggja eins litla veikingu krónunnar og mögulegt er.
Seðlabankinn virðist því hugsa til þess að stýrivaxtahækkanir haldi ekki aðeins aftur af verðbólgu, heldur einnig vexti hagkerfisins að því er greiningardeildin segir. Fagnar hún því að Seðlabankinn sé farinn að beita fleiri stjórntækjum en stýrivöxtum, en ítrekar hættuna á því að beita skuldsettum gjaldeyrisforða og nauðsyn þess að bregðast við ef krónan styrkist á vormánuðum til þess að geta endurheimt forðann.