Seðlabanki Íslands mun halda gjaldeyrisútboð hinn 19. mars næstkomandi sem eru liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum. Seðlabankinn býðst til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum í flokknum RIKS 33 0321. Jafnframt kallar Seðlabanki Íslands eftir tilboðum frá aðilum sem vilja selja íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
Vakin er athygli á að í útboðsskilmálum ríkisverðbréfaleiðar og fjárfestingarleiðar hefur lágmarksfjárhæðum verið breytt. Þannig mun lágmarksfjárhæð til þátttöku í útboðshluta fjárfestingarleiðarinnar verða 25 þúsund evrur og lágmarksfjárhæð til þátttöku í ríkisverðbréfaleiðinni verða 10 þúsund evrur. Áður hafði lágmark í fjárfestingarleiðinni verið 50 þúsund evrur og í ríkisverðbréfaleiðinni 100 þúsund evrur.
Tilboðum skal skilað eigi síðar en 19. mars 2013. Nánari lýsingu á framkvæmd útboðanna þriggja er að finna í útboðsskilmálum. Markmið þessara aðgerða er að selja krónur fyrir gjaldeyri til aðila sem ákveðið hafa að fjárfesta í íslensku atvinnulífi eða í skuldabréfum ríkissjóðs sem verða í vörslu í 5 ár. Aðgerðin stuðlar þannig að því að fjármagna ríkissjóð á hagkvæman hátt til langs tíma og draga með þeim hætti úr endurfjármögnunarþörf auk þess að laða til landsins erlendan gjaldeyri í langtímafjárfestingar og auðvelda þannig losun gjaldeyrishafta.